Félagsleg einangrun er alvarlegt lýðheilsumál

eftir Ritstjórn

Líney Úlfarsdóttir er sálfræðingur með sérhæfingu í geðheilbrigði aldraðra frá háskólanum í Árósum. Hún tók þátt í Fræðadegi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á dögunum og flutti þar vel sótt erindi um geðheilbrigði aldraðra, stöðu og framtíð. Við birtum hér hluta af áhugaverðri grein sem má sjá í heild sinni á www.hsn.is en Líney segir vitundarvakningar þörf um félagslega einangrun aldraðra

Félagsleg einangrun stórt lýðheilsumál   

Félagsleg einangrun hefur aukist mikið um allan heim samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). „Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur flaggað því að félagsleg einangrun sé lýðheilsumál á pari við ofneyslu áfengis og reykingar. Þá hefur verið sýnt fram á að hún eykur líkur á ótímabærum dauða, á hjarta- og æðasjúkdómum og líkur á heilabilun aukast um 50% hjá félagslega einangruðu fólki. Auðvitað eru einhverjar breytur eins og vanvirkni sem skipta máli, en þetta er samt þess eðlis að það er til mjög mikils að vinna fyrir okkur sem samfélag að vinna gegn þessu.“  

Margt getur breyst með aldrinum sem getur gert aðstæður erfiðar fyrir einstakling. Sem dæmi um stóra áhættuþætti sem geta ýtt undir félagslega einangrun er makamissir, að hætta að vinna og heyrnarskerðing. „Það er erfitt að fóta sig upp á nýtt eftir makamissi og hlutir eins og að fara einn í leikhús eða í ferðalög getur orðið mjög snúið fyrir einstaklinga. Það að hætta að vinna er einnig stór áhættuþáttur af því að við erum svo mörg með helstu félagstengslin í gegnum vinnuna. Þá getur heyrnarskerðing valdið því að fólk á erfitt með að vera í mannmergð eða miklum klið og dregur sig því til baka. Færniskerðingin er líka stór þáttur, fólk veigrar sér kannski meira við að gera og fara eitthvað ef það getur bara verið í þægindum heima fyrir. En með því að vera mikið ein minnkar hugræn virkni okkar sem getur aukið líkur á heilabilun.“ Rannsóknir sýna einnig að í þeim samfélögum þar sem félagsleg einangrun mælist mikil er hagvöxtur minni en ella, því fólk er minna á ferðinni og einkaneysla dregst saman. Fólk sækir síður samkomur eða menningarviðburði af ýmsum toga.  

Mikilvægt að rjúfa vítahring einsemdar 

Samskipti reyna á kollinn okkar. Við erum alltaf að hugsa nýjar leiðir til að tjá okkur og eiga í samskiptum og reikna út viðbrögð annarra. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna að rjúfa vítahring einsemdar og virkja fólk til samskipta. „Þetta er ekki einfalt mál en það er alltaf hluti af sálfræðilegri nálgun þegar fólk með kvíða og depurð kemur að beina því að því sem hægt er að breyta strax og grípa þannig í taumana. Öll þátttaka í félagsstarfi af ýmsum toga skiptir miklu máli, þátttaka í námskeiðum eða hreyfingu til að mynda – fólk er líklegra til að taka þátt ef það hefur skuldbundið sig til að gera það. Ef þú til dæmis hittir vin úti í Bónus og upp kemur þetta venjulega, „nei, nú verðum við að fara að hittast,“ sem er auðvelt að gleyma, þá ætti bara strax að ákveða dag og tíma. Það getur verið erfitt ef fólk hefur einangrast félagslega að stíga aftur inn í samfélagið. Félagsfærni er bara eins og vöðvi sem getur visnað og þarf þjálfun. Sem dæmi um félagslega endurhæfingu er að mæta á einhvern viðburð eins og til dæmis einhvern fyrirlestur eða upplestur í verslun eða bókasafni sem krefst minna af manni en að mæta strax á spilakvöld í félagsmiðstöðinni til dæmis.

Rútína er góð fyrir okkur  

Fólk er í meira mæli en áður að minnka við sig vinnu eða jafnvel hætta snemma að vinna ef það hefur tök á. „Já, mjög mörg hlakka til að hætta að vinna á þessum tíma og geta meira um frjálst höfuð strokið. En það er ekki bara gott að fólk pæli í fjármálunum sínum þegar að þessum tímamótum kemur heldur einnig hvernig það ætlar að halda sér félagslega virku. Það eru víða fyrirtæki og stofnanir sem halda starfslokanámskeið fyrir fólk til að aðstoða það við að brúa þessi æviskeið. Margir  vinnuveitendur bjóða fólki einnig upp á að minnka við sig vinnu sem er mjög gott aðlögunarferli. Þannig getur fólk prófað sig svolítið áfram, jafnvel skráð sig á námskeið í einhverju áhugaverðu eftir hádegi sem það hefði annars ekki gert. Það er líka gott að byrja aðeins fyrr að kortleggja stöðuna fyrir starfslok og meta til dæmis hvernig félagslegu tengslin eru. Á ég fullt af kunningjum út um allt eða eru þeir flestir á vinnustaðnum? Hvað geri ég þegar ég hætti að mæta hingað kl. 8 alla morgna, hvað kemur í staðinn? Það er mjög fínt að reyna að skipuleggja sig, sérstaklega ef ekki eru til staðar einhver áhugamál sem taka upp tíma manns. Það er gott að gera einhverja reglubundna hreyfingu eða skrá sig á einhver námskeið til að allir dagar séu ekki eins – ég legg til dæmis áherslu á að fólk eigi helgar, þannig að allir dagar renni ekki út í eitt. Rútínan er góð fyrir okkur

Tengdar greinar