Framtíðin er hér: Borgholmsmódelið sem fyrirmynd í heilbrigðisþjónustu við fjölveika aldraða

eftir Guðný Stella Guðnadóttir

Borgholm heilsugæslan er á Norður Öland, sem er eyja við suðurströnd Svíþjóðar og þjónustar hún um 10.700 manns. Haustið 2016 vaknaði hugmyndin um heimaspítala. Heilbrigðisstarfsfólk sá að margir einstaklingar sem fengu heimahjúkrun og félagsþjónustu voru álíka veikir og sjúklingar sem voru inniliggjandi. Þessir skjólstæðingar lentu oft á milli stafs og hurðar í kerfinu þar sem skortur var á samhæfingu félagsþjónustu, heimahjúkrunar, heilsugæslu og sjúkrahúss.

Í nóvember 2016 hittust hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar í heimahjúkrun, starfsmenn félagsþjónustu, starfsfólk heilsugæslu og starfsfólk utanspítalaþjónustu á þróunardegi. Þverfaglegir vinnuhópar skrifuðu óskalista fyrir veikustu sjúklingana. Efst á óskalistanum var að geta tryggt vitjun heimilislæknis í síðasta lagi næsta dag. Sjúkraflutningamenn bentu á að margir eldri sjúklingar sem ekki voru bráðveikir þegar sjúkrabíll kom vildu samt vera fluttir á bráðamóttöku, einfaldlega af því að þeir treystu sér ekki til að leita á heilsugæslu næsta dag. Þar á eftir kom sú ósk að allir sjúklingar ættu sinn heimilislækni sem hefði heildarsýn á öllum stigum heilbrigðisþjónustu einstaklingsins.

Helstu þættir heimaspítalans í Borgholm

  • Í grunninn er heimaspítalinn fyrst og fremst góð samvinna félagslegrar þjónustu, heimahjúkrunar, utanspítalaþjónustu og heilsugæslu.
  • Heimilislæknir og heimahjúkrun fær alltaf tilkynningu þegar einhver af þeirra 500 sjúklingum leggst inn á svæðissjúkrahúsið eða kemur á bráðamóttöku. Heimilislæknir athugar sjúkraskrá og hefur samband við deild eftir þörfum til að miðla mikilvægum upplýsingum
  • Allir heimilislæknar taka frá tímann á milli 11-12 á hverjum degi fyrir bráðavitjanir.
  • Fram til 8.30 geta hjúkrunarfræðingar í heimahjúkrun og á heilsugæslu, sjúkraflutningamenn og aðrir læknar bókað í þessa tíma

Stafræn heilbrigðisþjónusta og eftirlit einstaklinga með langvinna sjúkdóma

Stafræn þjónusta hjálpar til við að gera þjónustu heimaspítalans skilvirka. Sjúklingar með t.d hjartabilun og langvinna lungnaþembu nota smáforrit (app) til að senda upplýsingar um lífsmörk og líðan daglega til hjúkrunarfræðinga heilsugæslunnar. Við versnanir geta hjúkrunarfræðingar farið í vitjun og hafa með sér tölvu eða síma með beinni tengingu við sjúkraskrá heilsugæslu og sjúkrahúss. Hægt er að skrá strax lífsmörk og sjúkraskrá. Hjúkrunarfræðingur getur hringt í lækni með myndsamtali. Læknir í bráðavitjunarteymi fer svo í vitjanir eftir þörfum.

Endurhæfing í heimahúsi og fleira

Í Borgholm er einnig í boði að sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfarar sinni endurhæfingu í heimahúsi. Allt að 50 sjúklingar með alvarlega langvinna sjúkdóma eru með snjallforrit og eftirlit í heimahúsi. Einn mikilvægur þáttur er að mikil heimaþjónusta er í boði og 180 manns starfa við félagsþjónustu á svæði sem er svipað stórt og Selfoss.

Heimildir

  1. Sveriges kommuner och regioner, Nära vård i Borgholm: https://skr.se/download/18.5627773817e39e979ef5c687/1642492524858/7585-694-0.pdf
  2. Hemsjukhuset 3.0. Internet of Things Sverige, a strategic innovation programme: https://iotsverige.se/projekt/hemsjukhuset-3-0

Tengdar greinar