Nú í upphafi árs er umræðan um heilsurækt og hollt og gott mataræði allsráðandi. Gildir þar einu hvort um er ræða greinar og auglýsingar í fjölmiðlum eða rabb manna á milli. Okkur lék hins vegar hugur á að vita hvaða máli það skiptir fólk raunverulega að ástunda þessa hollu lífshætti.
Við byrjum á að heyra í Áka Heinz sem við fréttum að hefði gert meiriháttar lífstílsbreytingu fyrir nokkrum árum :
Áki Heinz Haraldsson, býr í Vestmannaeyjum og verður brátt 76 ára. Hann starfaði hjá Flugfélagi Íslands h.f. frá 1962-1973 og síðan hjá Vestmannaeyjabæ frá 1973-2015 og er öllum Vestmannaeyingum að góðu kunnur
Áki stundar líkamsrækt sína hjá Janusi heilsueflingu sem felst í gönguæfingu og æfingum í þreksal 3svar í viku.
Hann var í byrjendahóp, sem hóf æfingar í september 2019 og er því kominn í 4. bekk eins og hann segir að þau grínist með í þessum skemmtilega hóp.
En hverju hefur það breytt fyrir Áka að stunda heilbrigðan lífstíl ?
Ég hafði aldrei stigið inn í þreksal er ég hóf æfingar en þær æfingar auk gönguæfinga hafa stælt mann til muna og liðleiki og betra þol spila þar stóra rullu. Góð fræðsla um hollustu matar kemur að góðum notum segir hann. Áki segir einnig að hann hafi sannreynt að bæði andleg og líkamleg heilsa geri mann að betri manni, lífið leiki við hvern sinn fingur og lundin jákvæð og drífandi.
Við spurðum Áka um hvort hann ætti ráðleggingar í pokahorninu til þeirra sem koma sér ekki af stað í heilsurækt ?
Að leggja alls ekki árar í bát, heldur stunda daglega hreyfingu sem er lífsnauðsynleg ef ekki á að fara illa og svo er það svefninn og holla fæðið sem sífellt verður að huga að