Hefur golf jákvæð áhrif á heilsuna ?

eftir Ritstjórn

Nú þegar Íslandsmótinu er nýlokið er vert að skoða hvort golfíþróttin hafi jákvæð áhrif á heilsuna.

Niðurstöður margra rannsókna gefa sterkar vísbendingar um að golfíþróttin stuðli að betri heilsu og vellíðan. Golfíþróttin er því mikilvægur þáttur í að bæta lýðheilsu almennings. Þó ekki sé hægt að stjórna aldri og erfðum eru áhrifaþættir heilbrigðis þess eðlis að hafa má áhrif á þá og stuðla að bættri heilsu og vellíðan og minnka líkur á sjúkdómum.

Golfíþróttin getur m.a haft jákvæð fyrirbyggjandi áhrif á marga sjúkdóma og einnig dregið úr einkennum langvinnra sjúkdóma s.s sykursýki og hjartasjúkdóma ásamt því að hafa jákvæð áhrif á andlega heilsu. Það besta er kannski að þú þarft ekki einu sinni að vera góður í golfi til að fá þessi jákvæðu áhrif !

Elstu kylfingum golfhreyfingarinnar hefur fjölgað umtalsvert og í aldurshópnum 70-79 ára fjölgaði kylfingum um 13 % á mlli áranna 2020 og 2021 og í hópi 80 ára og eldri var fjölgunin um 10 %. Annars eru flestir sem stunda golfíþróttina á aldrinum 40 -69 ára.

Kylfingar lifa fimm árum lengur

Þeir sem stunda golfíþróttina lifa að meðaltali fimm árum lengur samkvæmt sænskri rannsókn frá árinu 2008. Niðurstöður rannsóknarinnar voru að þeir sem stunda golfíþróttina lifðu að meðaltali fimm árum lengur en þeir sem stunda ekki golf. Í rannsókninni sem gerð var á 300.000 sænskum golfurum kom einnig fram að dánartíðni var lægri en hjá Svíum almennt. Rannsakendur sögðu þetta þó ekki koma sér á óvart því heilsusamleg áhrif reglulegrar hreyfingar væru þekkt ásamt því að golfíþróttin hefur einnig jákvæð félagsleg áhrif.

Niðurstöðurnar vöktu mikla athygli og það sem kom mest á óvart var að þeir sem nota golfbíl við golfleik eru einnig líklegir til að lifa allt að fimm árum lengur en þeir sem ekki stunda golf.

Sjö atriði sem ættu að hvetja til golfiðkunar

Í nýútkomnu riti Golfsambands Íslands er vitnað í Edwin Roald þar sem hann fer yfir sjö ástæður þess að hollt sé að stunda golf og ef þetta er ávinningurinn ættu allir sem mögulega geta að skella sér í golfið.

Hjartaheill – það að ganga og sveifla kylfunni ásamt því að bera golfpokanna eða draga kerruna eykur blóðflæði og hjartsláttartíðni

Örvar heilann – regluleg, dagleg ganga vinnur gegn minnistapi

Aukakílóin burt – nýlegar rannsóknir sýna að karlkyns kylfingur brennir um 2.500 kaloríum á átján holum en konur 1500 hitaeiningum

Minnkar streitu – ánægjan af því að ganga utandyra, í fersku lofti og góðum félagsskap ásamt því að leysa krefjandi þrautir framkallar endorfín sem stuðlar að bættri andlegri líðan

Betri svefn – hreyfing og ferskt loft stuðla að bættum svefni

Lág slysatíðni – golf er örugg iðja í þeim skilningi að kylfingur gengu á mjúku og hæfilega öldóttu undirlagi

Lengir lífið – hláturinn lengir lífið hið sama má segja um golf

Góð áhrif golfíþróttarinnar líka andleg

Útiveran við að stunda golf hefur jákvæð áhrif t.d ferska loftið og aukin D-vítamín upptaka á sólardögum. Golf reynir bæði á huga og líkama og hugurinn verður fyrir stöðugri örvun við þær áskoranir sem mætt er á vellinum, svo segja má að golfið sé góð hugarleikfimi. Bent hefur verið á að þeir sem stundi golf séu síður líklegir til þess að þróa með sér kvíða og þunglyndi. Þeir sem stunda golf fá oft aukið sjálfstraust og það eykur líkurnar á því að þeim líði betur andlega og líkamlega. Þá er félagslegi þátturinn einnig mikilvægur en flestir sem stunda golf gera það í samneyti við aðra.

Heilsuávinningurinn sem hlýst af golfiðkun er því líklega mun meiri en við flest gerum okkur grein fyrir. Samkvæmt stefnu Golfsambands Íslands fyrir 2020-2027 er markmiðið að golfhreyfingin á Íslandi verði virkur þátttakandi í lýðheilsumálum þjóðarinnar og ekki hvað síst eldri borgara. Af því tilefni hafa þeir nýverið gefið út bækling til að kynna sveitarfélögum og ríki jákvæð áhrif golfiðkunar á forvarnir, heilsueflingu, hreyfingu og geðrækt. Þessi grein er byggð á upplýsingum úr því riti sem skoða má hér og við hvetjum alla til að skoða.

Heimild: Golfsamband Íslands : „Golfíþróttin hefur jákvæð áhrif á lýðheilsu“

Tengdar greinar