Heilbrigði og hamingja

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Er eitthvað hægt að gera til að viðhalda heilbrigði og lifa hamingjusömu lífi á efri árum? Er ekki bara allt orðið grátt og dapurt þá?  Vissulega er það þannig, að með hækkandi aldri eykst fjöldi þeirra áfalla og sorga sem einstaklingar hafa gengið í gegnum á ævinni en einnig sú vitneskja að enginn kemst í gegnum heila mannsævi án þess. Það er fyrir þá vitneskju og þroska sem því fylgir sem fólk áttar sig á því að það sem ekki er hægt að forðast og koma í veg fyrir þarf að læra að lifa með. Í því eru flestir sem komnir eru á efri ár orðnir sérfræðingar í.  

Efri árin geta verið góður tími til að njóta lífsins, fólki er oftast farið að líða betur í eigin skinni, hrukkur á enni, grátt hár, skalli eða aukakíló á rassinum er líklegast hætt að skipta máli. Þessi kynslóð býr orðið yfir mikilli þekkingu, börnin löngu farin að heiman og það er frelsi til að gera það sem fólki langar til og hefur aðstæður til að framkvæma. Heilsufarsvandamál eru líklegast farin að láta á sér kræla en með heilsu er átt við líkamlega, andlega og félagslega vellíðan en ekki endilega að vera laus við sjúkdóma eða heilsubrest (enda stundum sagt að, ef þú finnur hvergi til eftir fimmtugt ertu líklegast dáinn). En ekki láta neitt stoppa þig í að lifa lífinu, ekki láta heilsufarið stoppa þig ef þú getur bara hreyft tærnar, hreyfðu þá tærnar.  Ef þér hugnast betur rappið sem barnabörnin hlusta á frekar en Ellý Vilhjálms, hlustaðu þá á rappið. Horfðu á það sem þú getur gert en ekki það sem þú getur ekki gert. Rannsóknir segja að genin ákvarði aðeins hluta af langlífi, restin er undir þér komin.

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að eftirfarandi þættir eru til þess fallnir að auka hamingju og heilbrigði:

Hreyfing

Bara lítil hreyfing á dag skiptir máli og það er aldrei of seint að byrja.  Líkamsþjálfun fyrir eldra fólk er gríðarlega mikilvæg og sýna rannsóknir að með markvissri hreyfingu er hægt að hægja á öldrunarbreytingum í líkamanum.  Hægt er að bæta úthald, auka vöðvastyrk, bæta jafnvægi, bæta svefn og auka viðbragðsflýtir með skipulagðri hreyfingu. Taktu létta göngu, taktu þátt í skipulögðum hóptímum, skráðu þig á einhvers konar heilsueflingarnámskeið, hreyfðu tærnar, gerðu bara eitthvað sem kemur blóðrásinni af stað og lætur hjartað slá örlítið hraðar.  Andlega hliðin verður líka léttari við smá hreyfingu. 

Mataræði

„Þú ert það sem þú borðar“ er setning sem oft er sögð þegar mataræði berst í tal.  Að hluta til er það satt að áhrif matarins sem við látum ofan í okkur eru mikil. Orkuþörf og matarlyst minnkar oft með aldrinum og því þarf að vanda enn betur hvað sett er á diskinn. Próteinrík fæða, hreint fæði án aukaefna, trefjar, grænmeti, ávextir og fullt af vatni geta haft mikið að segja um líkamlega vellíðan. Það hefur síðan góð áhrif á andlega vellíðan að leyfa sér stöku sinnum það sem manni finnst allra best þó það sé súkkulaði eða skata. 

Félagsleg samskipti                                                

Einn helsti áhrifaþáttur á vellíðan á efri árum eru góð tengsl við vini og fjölskyldu. Það er mikilvægt að vera áfram þátttakandi í lífinu þó árin færist yfir. Lifðu í núinu og njóttu samverunnar með fjölskyldunni og þeim sem þér þykir vænt um. Þú getur líka eignast nýja vini þó árin færist yfir, taktu þátt í félagslífinu sem er í boði þar sem þú býrð eða farðu bara í búðina seinni partinn og spjallaðu við samferðarfólkið.  Rannsóknir sýna að þeir sem eiga í jákvæðum félagslegum samskiptum lifa lengur, búa við minni streitu og líður almennt betur.

Hugsaðu vel um þig

Þó aldurinn hækki getur þú haldið áfram að gera hlutina með stæl og bera þig vel. Haltu áfram að hafa rútínu í lífinu, fara á fætur og skipuleggja daginn.  Það er engin ástæða til þess að hætta að klæða sig í snyrtileg föt og snyrta sig til.  Ef þig langar í ný föt eða nýjan lit á hárið þá láttu það eftir þér, þú lifir bara þessu eina lífi.  Umfram allt elskaðu sjálfan þig og hugsaðu um allt það góða sem þú hefur gert í lífinu.  Horfðu tilbaka og hrósaðu þér fyrir allt sem þú hefur lagt til samfélagsins. Öll vinnan þín, öll viskan sem þú hefur miðlað, brosin þín, stundirnar sem þú eyddir með fólkinu í kringum þig, allt þetta hefur skipt einhvern einhvers staðar miklu máli. Það er örugglega ekkert smáræði sem þú hefur áorkað í lífinu, þú þarft kannski bara að rifja það aðeins upp. Því það er partur af farsælum efri árum að líta sáttur um farinn veg og njóta fjársjóðs góðra minninga og reynslu.

Jákvæðni og hlátur

Hlátur losar um stresshormón og lætur fólki líða betur. Hlátur og gleði eru besta meðalið og nýleg rannsókn, sýnir að þeir sem  eru hamingjusamir, lífsglaðir og jákvæðir, verði síður veikir en þeir sem að eru neikvæðir. Leitaðu uppi jákvæðu hliðarnar á málunum, tölum um það jákvæða sem er að gerast í samfélaginu. Komdu sjálfum þér á óvart og sjáðu að á öllum málum er hægt að finna jákvæðar hliðar, það má að minnsta kosti alltaf æfa sig í því.

Tónlist

Áhrif tónlistar geta verið mismunandi og tengst reynslu og minningum hvers fyrir sig. Sumir tengja tónlist við ákveðin tímabil í lífinu eða atburði. Róleg tónlist hefur oft róandi og slakandi áhrif, getur lækkað blóðþrýsting og jafnað öndun. Hröð tónlist hefur örvandi áhrif, hjartsláttur eykst og hlustandinn hressist við. Hlustaðu á þá tónlist sem fær þér til líða vel og tengist jákvæðum tímabilum og minningum í lífinu. Sama hvort það er Kristján Jóhanns með óperuaríu, þjóðhátíðarlögin hans Oddgeirs eða Herra Hnetusmjör, láttu það eftir þér að dilla þér og syngja með. Hlustaðu á það sem lætur þér líða vel og hækkaðu í tækinu.

Umfram allt, gerðu allt það sem er gott fyrir ÞIG. 

Það ert ÞÚ sem ert sérfræðingurinn í þínu lífi.  

Tengdar greinar