Skiptir góð munnheilsa máli fyrir almenna heilsu og lífsgæði ?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Munnheilsa er svo sannarlega mikilvægur þáttur í almennri heilsu, vellíðan og lífsgæðum. Munnheilsa nær yfir margs konar konar þætti eins og t.d tannskemmdir, tannholdssjúkdóma, tannlos, krabbamein í munni, birtingarmyndir af sýkingu í munni, og áverka á tönnum og góm.

Mikilvægt er að gefa meiri gaum að munnheilsu í samhengi við aðra þætti heilsunnar. Eins og oft er bent á mun hlutfall aldraðra aukast mikið á næstu árum og áratugum. Sú tíð er liðin að allir sem komnir eru á efri ár séu með falskar og í dag er stór hluti þeirra sem koma inn á hjúkrunarheimili með sínar eigin tennur. Á hjúkrunarheimilum er oft ekki gefinn nægjanlega mikill gaumur að því að munnheilsa ætti að vera partur af læknismeðferð og skoðun. Í kröfulýsingu um hjúkrunarheimili er þó kveðið á um að rekstraraðilar eigi að sjá til þess að íbúar fái nauðsynlega tannlæknaþjónustu. Veruleikinn er þó sá að á fæstum heimilum er aðstaða á staðnum til að sinna þjónustunni og oft bæði kostnaðarsamt og tímafrekt að fara með íbúa út úr húsi til að sækja þjónustuna.

Ef ekki hefur verið vel hugsað um tennurnar geta ýmis vandamál tengd munninum haft mikil áhrif á lífsgæði og líðan einstaklinga á hjúkrunarheimilum sem jafnvel eiga erfitt með að koma því í orð hvað er að hrjá þá. Þarna þyrfti að koma til fræðsla og kennsla til starfsfólks sem annast aldraða einstaklinga um munnhirðu. Á heimasíðu Landlæknis má m.a finna myndbönd og fræðslu um tannhirðu.

Áhættuþættir fyrir slæma munnheilsu

Stórir áhættuþættir fyrir sjúkdóma í munni eru lélegt mataræði sem oft einkennist af mikillri sykurneyslu, reykingar og áfengisneysla. Áhættuþættir eru einnig léleg munnumhirða og streita. Félagsleg staða hefur einnig sýnt sig hafa áhrif á munnheilsu enda tannlækningar kostnaðarsamar og tekjulágir einstaklingar eiga á hættu að veigra sér eða fresta því að leggja í þann kostnað sem þeim fylgir. Það er fylgni á milli munnheilsu og ýmissa sjúkdóma s.s lungnabólgu og hjarta- og æðasjúkdóma. Í nýrri grein um mikilvægi munnheilsu fyrir heilbrigða öldrun kemur fram að góð munnheilsa eykur líkurnar á góðum bakteríum og fyrirbyggir að slæmar bakteríur berist á aðra staði í líkamanum. Þær geta borist með blóðrásinni og valdið sýkingum og bólgum annars staðar í líkamanum. Það er því til mikils að vinna að munnurinn sé í góðu standi.

Kostnaður við tannlækningar

Í samfélaginu er samstaða um að sameiginlegir sjóðir standi að veruleyti straum af kostnaði við heilbrigðiskerfið. Ætti það ekki að eiga við um munnheilsu líka ? Vissulega hafa mikilvæg skref verið stigin í þá átt á síðustu árum s.s með því að tannlækningar barna eru gjaldfrjálsar ef undan er skilið hóflegt árgjald. Eldri borgarar og lífeyrisþegar fá 63 % afslátt af gjaldskrá. Ekkert gjald er fyrir langveika einstaklinga sem búa á stofnunum s.s hjúkrunarheimilum af almennum tannlækningum. Undir almennar tannlækningar fellur t.d skoðun, röntgenmyndir, reglulegt eftirlit, tannviðgerðir, rótfyllingar, tannholdslækningar, úrdráttur tanna og laus tanngervi.

Hvað er hægt að gera til að fyrirbyggja vandamál tengd munnheilsu á efri árum ?

Fyrst og fremst er mikilvægt að fylgja almennum leiðbeiningum um tannhirðu, hollt mataræði og lífstíl. Í þessari grein sem áður birtist á www.aldur.is er farið yfir einföldu atriðin. Fara þarf reglulega í heimsókn til tannlæknis í skoðun og ráðgjöf um hvort einhverju sé ábótavant eða þurfi að gera. En síðast en ekki síst þurfa stjórnvöld að skoða og meta hvort styðja ætti betur við munnheilsu fólks á milli 18 og 66 ára sem lið í almennri heilbrigðisþjónustu. Eins og bent var á eru margir sem hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að sækja sér tannlækna þjónustu.

Mætti til dæmis bjóða upp á fría „ástandsskoðun“ einu sinni á ári fyrir allan aldur ?



Heimildir: Alþjóða heilbrigðisstofnunin ,
Sjúkratryggingar, Landlæknir, Kröfulýsing hjúkrunarheimila, Oral health for healthy
ageing

Tengdar greinar