Matur samanstendur af orkugefandi næringarefnum, sem eru kolvetni, fita og prótein og snefilefnum sem eru steinefni, vítamín og andoxunarefni. Þessi næringarefni eru nauðsynleg til að viðhalda eðlilegri starfsemi líkamans. Mismunandi fæðutegundir innihalda mismunandi næringarefni og þess vegna er mikilvægt að borða fjölbreytta fæðu.
Næring er ekki svört og hvít
Kolvetni hafa fengið á sig slæman stimpil undanfarin ár. Matur sem inniheldur kolvetni inniheldur oft mikið af mikilvægum næringarefnum sem líkaminn þarfnast eins og vítamínum, steinefnum, andoxunarefnum og trefjum. Við borðum yfirleitt mat sem er samsettur úr mörgum mismunandi næringarefnum en ekki bara einu næringarefni. Næring er ekki svona svört og hvít.
Orkugefandi næringarefni gefa okkur orku sem líkaminn nýtir eins og eldsneyti. Þau eru brotin niður í smærri einingar áður en líkaminn flytur þau með blóðrásinni til frumna líkamans sem nýtur þau sem orku.
Einföld og flókin kolvetni
Kolvetnum er gróflega hægt að skipta niður í einföld kolvetni og flókin kolvetni, eftir því hvernig þau eru uppbyggð. Kolvetni eru byggð upp af þremur aðal sykrum og eru það glúkósi, frúktósi og galaktósi. Það er hægt að líkja þessum sykrum við kubba sem byggja upp kolvetnin og fer það eftir hversu margir kubbar koma saman hvort við erum með einfalda byggingu kolvetna eða flókna. Þeim mun stærri sem einingar eru þeim mun lengri tíma tekur fyrir meltinguna að brjóta þær niður í glúkósa sem fer út í blóðið og frumur líkamans nýta sem orku.
Matur sem inniheldur flókin kolvetni eru t.d. heilkornavörur, grænmeti, ávextir, baunir, hnetur og fræ. Matur sem inniheldur einföld kolvetni sem líkaminn er fljótur að brjóta niður er t.d. fínunnar kornvörur, sætabrauð, sælgæti, kex, kökur, ís og sykraðir gosdrykkir.
Bætum inn næringu í stað þess að vera alltaf að taka út
Gott er að leggja frekar áherslu á að bæta inn í mataræðið næringarríkum mat í staðinn fyrir að vera alltaf að taka út. Þegar við bætum inn næringarríkum mat inn í mataræðið, verður oft ósjálfrátt minna pláss fyrir t.d. sætindi.
Ef það er eitthvað sem má ekki borða getur verið erfitt að hætta að hugsa um það og maður borðar þá meira af því en ella og samviskubitið fylgir fast á eftir sem gerir engum gott.
Þá er einnig gott að borða reglulega yfir daginn vegna þess að ef við verðum of svöng og of langur tími líður á milli máltíða þá eru það eðlileg viðbrögð líkamans að kalla eftir skjótri orku og þá sækjumst við frekar í einföld kolvetni eins og sætindi eða sætabrauð.
Trefjar
Trefjar eru kolvetni sem þarmaflóran okkar elskar. Matur sem er trefjaríkur frá náttúrunnar hendi inniheldur ríkulegt magn af öðrum næringarefnum eins og vítamínum, steinefnum, jurtaefnum og og andoxunarefnum og getur haft ýmis heilsufarsleg áhrif á leið sinni um meltingarveginn t.d.:
- Góð áhrif á blóðsykursstjórn
- Geta lækkað kólesteról í blóði
- Örva hreyfingu meltingarvegar
- Auka magn hægða
- Eru mettandi
Hvar er trefjar að finna?
Trefjar eru nánast eingöngu að finna í plönturíkinu. Trefjar er að finna í grænmeti, ávöxtum heilkorni, baunum, linsum, hnetum og fræjum. Hver þessara fæðutegunda inniheldur mismunandi tegundir trefja. Það að fá mismunandi tegundir trefja úr mismunandi tegundum matvæla getur haft góð heilsufarsleg áhrif. Enn eitt dæmið um mikilvægi þess að borða fjölbreytta fæðu!
Landsmenn borða lítið af trefjaríkum mat
Samkvæmt nýjum niðurstöðum úr Landskönnun á mataræði sem Embætti Landlæknis stóð fyrir 2019-2021 eru landsmenn ekki að borða nóg af grænmeti, ávöxtum, heilkornavörum, baunum, linsum, hnetum og fræjum sem innihalda mikið af trefjum, vítamínum, steinefnum og andoxunarefnum.
Til þess að auka neyslu á trefjaríkum mat er t.d. hægt að:
- Nota oftar heilkorna brauð í staðinn fyrir hvítt brauð
- Nota meira af grænmeti með máltíðum – nota ferskt, soðið, bakað, grillað, steikt
- Nota ávexti út á morgunverðinn eða skera niður og borða með máltíðum eða í millimál
- Nota hnetur og fræ út á morgunverð, út í rétti eða sem millimál
- Nota baunir eða linsur út í máltíðir