161
Seinustu daga hefur snjóað víða á landinu og margir þurfa að fara út að moka frá húsum og íbúðum, ef ekki fyrir sig sjálfa þá fyrir póstberann eða sorphirðufólkið. Á fésbókarsíðunni sem Hildur Sólveig Sigurðardóttir sjúkraþjálfari heldur úti sáum við nokkur góð ráð til að passa upp á bakið við snjómoksturinn og fengum leyfi til að birta þau hér. Þar kemur fram að snjómokstri geti fylgt bakverkir, axlarverkir og jafnvel áreynslutengd áföll á borð við hjartaáfall.
Neðangreind ráð eru gefin til að auka öryggi og heilsuvernd við snjómokstur :
- Mannbroddar geta forðað falli í hálku
- Beygðu þig í hnjám og mjöðmum til að auðvelda þungaflutning, mokaðu með fótleggjunum, ekki bakinu
- Spenntu djúpu kviðvöðvana til að vernda bakið
- Ekki standa í sömu skrefum og snúa upp á bakið, taktu eitt skref til hliðar og haltu bakinu beinu
- Ekki moka snjó skömmu eftir máltíð
- Byrjaðu rólega og teygðu jafnvel aðeins á í upphafi
- Best er að moka nýfallin púðursnjó þar sem hann er léttari
- Ef skaflarnir eru háir, skafðu ofan af þeim svo þú þurfir ekki að lyfta eins þungu fargi
- Ekki reyna of mikið á þig í einu, taktu reglulega hvíld og fáðu þér að drekka
- Fáðu hjálp ef þú treystir þér ekki í verkið frá vin, fjölskyldu eða einhverjum sem býður upp á snjómokstur gegn gjaldi
Á síðunni https://www.facebook.com/Leidarvisir má sjá þessi ráð ásamt fleiri góðum ráðum og Hildi Sólveigu sjúkraþjálfara sýna í mynd hvernig best er að bera sig að við moksturinn