Við fréttum af manni að nafni Tryggvi Hjaltason sem er mikill hugsuður og hefur sökkt sér ofan í lestur,rannsóknir og pælingar um ýmsar hliðar mannlífsins. Hann hefur til að mynda verið ötull í því að benda á hvernig hægt sé að gera menntakerfið betra og þá sérstaklega hvað hægt sé að gera til að bæta líðan drengja.
Hann hélt nýverið áhugaverðan fyrirlestur um það markmið sitt að verða 200 ára gamall sem okkur langar að fræðast aðeins betur um
En hver er Tryggvi Hjaltason ?
Ég er 36 ára fjögurra barna faðir sem hefur fengið röð af blessunum sem hafa gert lífið af ævintýri eins og það að fá að fæðast í Vestmannaeyjum 1986 með heimsklassa foreldra og finna síðan ástina í lífinu mínu 16 ára í næsta húsi. Svo margt af því sem ég hef verið blessaður með hefur ekkert að gera með mitt eigið framlag.
Hvernig datt þér í hug að setja þér markmið um að verða 200 ára gamall ?
Þetta hefur svona þróast í þrem köflum hjá mér þetta markmið.
- Þegar ég var um 10 ára var ég að lesa Genesis (fyrstu Mósebók) og þar eru lýsingar á fólki sem varð mjög gamalt. Þetta plantaði “leyndardómsfræi” í hugan og ég hugsaði mikið um það af hverju ætli fólk hafi verið eldra fyrir flóðið, hefur DNA-ið okkar breyst, eða var tími kannski talinn öðruvísi þarna, eða gætum við mögulega verið eldri ef við bara högum okkur öðruvísi?
- Þegar ég fór svo að verða eldri og lífsmarkmiðin fóru að hrannast upp þá áttaði ég mig á því að ég yrði að ná a.m.k. 200 ára aldri ef ég ætlaði að eiga séns á að afkasta eitthvað í þessum markmiðum.
- Það er ljóst ef við skoðum söguna að ákvarðanir okkar og lífsgæði hafa stórkostleg áhrif á það hversu gömul við verðum. Meðal Evrópubúi varð um 50 ára á 12.-19. öld en meðal Íslendingur verður meira en 80 ára í dag og samkvæmt UNICEF getur meðal evrópskt barn sem er að fæðast í dag búst við því að verða meira en 100 ára.
Þess vegna hef ég hugsað: “ef ég gæti gert allt rétt, hvað gæti ég þá mögulega orðið gamall?” og ég held að svarið gæti verið vel norðan við 100, jafnvel tvö hundruð ára. Ef framfarir í stofnfrumuþekkingu og þekkingu á Guði og fleira halda síðan áfram á næstu áratugum þá gæti alveg myndast ákveðið stökk á mínu æviskeiði sem leyfir okkur kannski á tiltölulega stuttum tíma að bæta við áratugum í þessa jöfnu.
En svo kannski dettur píanó á mig á morgun, hver veit? Ég reikna samt ekki með að tapa miklu á að stefna á þetta.
Hvað þarf maður að gera til að eiga möguleika á að verða 200 ára gamall ?
- Settu svefn í forgang
- Borðaðu alltaf kvöldmat með fjölskyldu og/eða vinum, helst hollan
- Haltu hvíldardag
- Ræktaðu trú og tilgang
- Fastaðu ársfjórðungslega í 2-4 sólahringa
- Hreyfðu þig 5x í viku í amk 30 mín. Passaðu að ná upp hjartslætti en ná líka viðstöðuþjálfun (lyfta þungu) 1-2x í viku.
- Borðaðu minna og fjölbreyttara
- Lifðu fyrir aðra
- Þekktu sjálfa/n þig og rannsakaðu
- Fjárfestu í bjartsýnu lífsviðhorfi
Ert þú sjálfur að fylgja þessu þáttum eftir á hverjum degi ?
Já en það koma tímabil þar sem ég missi niður þætti og stundum marga og alvarlega, hvíldardagur dettur stundum út og ég borða of mikið stundum og of mikið af unninni matvöru sem dæmi.
Heldurðu að það séu fleiri sem eiga sér það markmið að verða 200 ára ?
Ég hef ekki hitt marga. En ég hitti alltaf fleiri og fleiri sem stefna á að lifa í meira en 100 ár.
Er samfélagið undir það búið að margir nái yfir 100 ára aldurinn, hvað þá 100 árum betur eða þurfum við að gera miklar breytingar ?
Nei og já, lífeyriskerfið og hagkerfi sem byggir á skipulögðu niðurbroti (e. planned obsolescence) er ekki sérstaklega hentugt í það. En á móti kemur að þá eru stórkostlegar tækniframfarir handan við hornið sem geta leyst eiginlega allar lykil áskoranir okkar í þessum efnum eins og uppgangur gervigreindar, þrívíddaprentun og sjálfbær orka. Þess vegna legg ég svona mikla áherslu á uppgang hugverkastoðarinnar á Íslandi, hún er lykill. Við þurfum að byggja upp samfélag sem getur virkjað tækniframfarir hratt og skilvirkt í umbreytingu hvata- vinnumarkaðs- og verðmætamódela.
Þekkirðu eða veistu af einhverjum í dag sem er í kringum 100 ára og við góða heilsu ?
Nei, en ég þekki ekki mikið af eldra fólki. Það sorglega og ömurlega við uppbyggingu samfélags okkar er að við hólfum eldra fólkið okkar talsvert frá samfélaginu okkar. Ég vil eldri borgarana okkar sem við eigum að kalla betri borgara, á leikskóla, spilakvöld með betri borgurum í framhaldsskóla, sögustund betri borgara á bókasafninu og viskumiðlun betri borgara í atvinnulífinu.
Þetta er okkar besta og reyndasta fólk en maður á mínum aldri sem á ekki ömmu og afa á lífi er gjarnan ekki með mikið af snertiflötum við eldra fólk og það er sorglegt og mikill tækifæriskostnaður.
En hvernig skilgreinir maður annars góða heilsu ?
Ég myndi forgangsraða því svona
- Þú elskar og ert elskuð/aður
- Þig langar fram úr á morgnana því þú hefur tilgang
- Þú getur klárað þá hreyfiferla sem þú ert smíðuð/aður fyrir án þess að verkja
- Þú getur framkvæmt þá vinnu/erfiði sem þú þarft til að standa við skuldbindingar þínar, vaxa í tilgangi þínum og þjóna samfélagi þínu og þeim sem þú elskar.
- Þú nærð reglulegri hvíld og getur upplifað djúpan frið með sjálfum þér og öðrum.
Ef þú tékkar í þessi box þá ertu heilbrigð/ur og líklega heilbrigðari en flestir.
Hvað heldur þú að sé elsti aldur sem mannvera hefur náð ?
122 ár á okkar sögulega tímaskeiði. Ég hef ekki hrokann í það að afskrifa eldri heimildir sem tala um nokkurra alda gamla einstaklinga og finnst skemmtilegt að velta því fyrir mér að e.t.v. er slíkur möguleiki innbyggður í okkur með rétta áreitinu, lífstíl og umhverfi.
Eitthvað að lokum ?
Ef þig vantar markmið eða tilgang þá er markmiðið að læra að elska aðra fyrir hverjir þeir eru en ekki hvað þeir gera nokkuð gott. Það neyðir þig í stanslausa sjálfsvinnu og auðmýkt þar sem óhjákvæmileg hliðarafurð er gleði, friður og kærleiki í vaxandi mæli.