Við leggjum ríka áherslu á að þetta sé skemmtilegt segir Héðinn Svarfdal verkefnastjóri um Virk efri ár á Akureyri

eftir Ritstjórn

Á Akureyri er farið af stað spennandi verkefni sem heitir Virk efri ár.  Við fluttum frétt af kynningarfundinum hér en langaði að fræðast aðeins betur um verkefnið.

Héðinn Svarfdal verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Akureyrarbæ var tilbúinn í að svara nokkrum spurningum fyrir okkur

Út á hvað gengur verkefnið Virk efri ár ?

Verkefnið snýst fyrst og fremst um að bjóða 60+ íbúum Akureyrarbæjar upp á fleiri og fjölbreyttari tækifæri til hreyfingar. Hluti af því er að nýta betur mannvirkin sem Akureyrarbær á og þá flottu þjálfara sem hafa kannski ekki alla jafna verið aðgengilegir þessum markhópi.

Það eru þrjár lotur yfir árið, en þær vara allar í 12 vikur. Fyrsta lotan, frá febrúar fram í maí er mest innandyra, en svo verður boðið upp á mun fleira utandyra þegar veður leyfir yfir sumartímann. Loks höldum við aftur meira inn í húsin með haustinu í þriðju lotunni. Svo mun þetta vonandi rúlla áfram um ókomna tíð.

En í fyrstu lotunni erum við að bjóða upp á s.k. göngufótbolta, sundleikfimi, pílukast, leiki, blak, styrktaræfingar, dans, frisbígolf innandyra, gönguferð með leiðsögn í gegnum heyrnatól, borðtennis, göngukörfubolta, jóga, badminton og loks fræðslu aðra hverja viku.

Þátttaka kostar 4.900 kr. á mánuði fyrir þetta allt saman og er skráning ekki að öðru leyti bindandi. Pælingin var í rauninni sú að verðið væri alveg ásættanlegt fyrir aðeins eitt af þessu, þ.e. einu sinni í viku, en að allt sem fólk veldi umfram það væri í raun einhvers konar bónus. Með öðrum orðum getur fólk mætt í eins margt af þessu og það vill, eins oft og það vill!

Hvert er markmiðið og hver er aðalmarkhópurinn ?

Markmiðið er að fá sem flesta eldri íbúa bæjarins til að hreyfa sig að minnsta kosti þrisvar í viku. En heilsa er meira en bara líkamleg og ekki síður mikilvægt að huga að hversu jákvæð áhrif skipulögð hreyfing með öðrum getur haft bæði andlega og félagslega.

Markhópurinn er í raun allir sem hafa áhuga, en við viljum sérstaklega laða inn í verkefnið þá sem hafa mögulega ekki fundið ýkja margt við sitt hæfi til þessa. Þess vegna leggjum við ríka áherslu á að þetta sé allt saman skemmtilegt, en við teljum einmitt það skipti gríðarlegu miklu máli að hafa þetta allt saman á léttum nótum.


Eru þið með einhverja sérstaka fyrirmynd að verkefninu og hvernig varð þetta verkefni til ?

Við skoðuðum margt af því sem aðrir eru að gera, bæði hérlendis og erlendis, en annars mótaðist hugmyndin mestmegnis hjá okkur. Enda mikilvægt að móta inngrip út frá því bæði hvað fólk hefur áhuga á að gera og hvað umhverfið hefur upp á að bjóða.

Það sem gleymist stundum er að fólk veit auðvitað vel að það er hollt og gott að hreyfa sig, en það skortir mögulega eilítið lágstemmdari og afslappaðri tækifæri til þess


Hverjir standa að verkefninu ?

Akureyrarbær stendur fyrir verkefninu, en við erum í nánu og góðu samstarfi við íþróttafélögin og klúbba sem eru starfandi hér innan sveitarfélagsins. Félag eldri borgara á Akureyri (EBAK) barðist fyrir því að fá fleiri tækifæri til heilsueflingar fyrir eldri íbúa og því hefur náið og gott samstarf við félagið verið frá byrjun.

Hvernig hafa viðtökurnar verið s.s varðandi skráningu ?

Viðtökurnar hafa verið ákaflega góðar. Við fengum rúmlega hundrað manns á kynningu hjá EBAK og svo um 220 manns í Menningarhúsið Hof.

Þar sem við erum bara í annarri vikunni erum við mest að hvetja fólk núna til að mæta og prófa, en formleg skráning mun svo eiga sér stað í næstu viku og þá verður Sportabler notað til að halda utan um greiðslur og skráningu í einstaka viðburði.

Við yrðum sátt ef við náum 150 manns, en það mun bara koma í ljós og klárlega mikilvægt að hafa í huga að góðir hlutir gerast jú hægt. Við munum mögulega átta okkur á að sumt sem við erum að bjóða upp á er kannski ekki að gera sig og þá er mikilvægt að vera tilbúin að breyta, bæta og þróa í samræmi við þarfir og væntingar markhópsins. Það má því segja að þetta verði því verkefni í stöðugri mótun.

Eitthvað annað að lokum ?

Við erum auðvitað ákaflega þakklát fyrir ótrúlega jákvæð viðbrögð þeirra sem bjóða upp á bæði aðstöðu og þjálfun, en við erum ekki síður þakklát markhópnum sjálfum og nærsamfélaginu í heild.

Við trúum að hér sé komið fyrirkomulag sem getur lifað áfram. Þegar ég sýndi 13 ára syni áætlunina sagðist hann vera meira en til í að taka þátt!

Það var einmitt markmiðið: Að hér verði í boði enn fleiri eftirsóknarverð og skemmtileg tækifæri til hreyfingar og samveru. En sonur minn þarf þó reyndar að bíða eitthvað aðeins áður en hann verður gjaldgengur í þetta tiltekna verkefni.

Við hvetjum því bara sem flesta til að koma og prófa!

Tengdar greinar