Hjartabilun, grein eftir Guðnýju Stellu Guðnadóttur sérfræðing í lyf- og öldrunarlækningum

eftir Guðný Stella Guðnadóttir

A.m.k. þriðjungur af eldri einstaklingum sem ég hitti í heimsóknarteyminu í Gautaborg er með hjartabilun. Sumir eru með væg einkenni og geta sinnt flestum þáttum daglegs lífs en aðrir eru með mikil einkenni, svo sem mæði og mikla þreytu, og þurfa mikla aðstoð. Síðarnefndi hópurinn þarf oft á endurteknum innlögnum að halda. Hjartabilun er erfiður sjúkdómur en með góðri meðferð og góðu eftirliti geta margir verið mikið heimavið og hægt er að halda einkennum niðri.

Hjartabilun þýðir að afkastageta hjartans er takmörkuð. Skipta má hjartabilun í tvær megingerðir, hjartabilun með minnkað útstreymisbrot og hjartabilun með varðveitt útstreymisbrot.

Hjartabilun með minnkað útstreymisbrot þýðir að geta hjartans til að pumpa út blóði inni blóðrásina frá vinstri hlið hjartans er skert, hjartað dregst ekki nógu vel saman.

Hjartabilun með varðveitt útstreymisbrot er til staðar þegar geta hjartans til að dragast saman er óskert en hjartað er of stíft. Í báðum tilvikum eru helstu einkennin mæði, þreyta og fótabjúgur. Ákveðin hljóð heyrast við lungnahlustun og læknar segja stundum „það er vökvi á lungunum“. Orsakir hjartabilunar geta verið ýmsar en algengastar eru hindranir í blóðflæði til hjartans (kransæðasjúkdómar) og hár blóðþrýstingur.

Uppvinnsla byrjar með því að sagan er tekin ásamt skoðun læknis og hjartalínuriti. Oft er mælt efni í blóðinu sem heitir NT-ProBNP (N-terminal pro B-type natriuretic peptíð) og rétt er að mæla bæði sölt í blóði, skjaldkirtilsprufur og kreatínin sem segir til um starfsemi nýrnanna. Ómskoðun af hjarta er mikivæg þar sem hún segir til um hversu alvarleg hjartabilunin er og hvaða gerð af hjartabilun er til staðar. Síðan eru oft gerðar frekari rannsóknir til að finna út orsök hjartabilunar.

Algengi hjartabilunar á Íslandi í þýði Reykjavíkurrannsóknarinnar reyndist vera 8,3% fyrir þátttakendur 70 ára og eldri. Ástæða þess að svo stór hluti einstaklinga sem þurfa aðstoð heimsóknarteymisins sem ég vinn í er með hjartabilun er hversu veikir einstaklingar með alvarlega hjartabilun verða og hversu mikla sjúkrahúsþjónustu þeir þurfa.

Hvaða meðferð er við hjartabilun ?

Einkennameðferð beggja tegunda hjartabilunar eru þvargræsilyf (vatnslosandi lyf) og stundum digitalis (digoxin). Þegar útstreymisbrotið er lækkað geta beta-hemlar og annaðhvort ACE-hemla eða Angiotensin viðtakahemlar dregið úr versnun hjartabilunar og haldið niðri einkennum. Líkamsrækt og endurhæfing getur einnig skipt miklu máli og hafa rannsóknir sýnt að reglubundin hreyfing með áheyrslu á vöðvastyrkt og þol hefur góð áhrif á líðan fólks með hjartabilun.  Í ákveðnum tilvikum er hjartabilun meðhöndluð með ígræðslu tvíhólfa gangráðs en einnig er í völdum tilfellum hjá yngra fólki er hægt að koma fyrir hjartadælu ( hjálparhjarta, gervihjarta).

Gott eftirlit, oft með heimahjúkrun, og sérhæfðar göngudeildir eins og göngudeild hjartabilunar á LSH geta aukið lífsgæði fólks með hjatabilun og fækkað innlögnum sjúklinga með hjartabilun og stytt legutíma þegar innlagnar er þörf. Auk þess eru mörg lyf í þróun og meðferð fleytir fram.

Hakur Einarsson og fleiri. Hjartabilun meðal eldri Íslendinga. Algengi, nýgengi, undirliggjandi sjúkdómar og langtímalifun. Læknablaðið 2017. 10. tbl. 103. árg.

Piotr Ponikowski, et al., 2016 ESC Guidelines for the diagnosis and treatment of acute and chronic heart failure, European Heart Journal, Volume 37, Issue 27, 14 July 2016, Pages 2129–2200.

Inga Sigurrós Þráinsdóttir og fleiri. The association between glucose abnormalities and heart failure in the population-based Reykjavik study. Diabetes Care 2005; 28: 612-6.

Tengdar greinar