Hugað að flórunni

eftir Soffía Eiríksdóttir

Undanfarin ár hefur heilsuumræða beinst í æ ríkari mæli að meltingarveginum og þá sérstaklega þarmaflórunni sem þar býr og margvíslegum áhrifum hennar á heilsu og vellíðan. Áhugi almennings virðist einnig vera mikill, þannig fór t.d. bókin Þarmar með sjarma sigurför um heiminn fyrir fáeinum árum, en þar fjallar höfundur á skemmtilegan hátt um hinn ósýnilega og falda heim þarmanna og þau fjölmörgu verkefni sem þar eru unnin daginn út og inn (1). Sjónir vísindamanna beinast nú einnig að þeim breytingum sem verða á starfsemi þarmanna og þarmaflórunni eftir því sem við eldumst og þeim áhrifum sem þær hafa á öldrun og almennt heilbrigði á efri árum.

Í vinnu allan sólarhringinn

Þarmaflóran samanstendur af örverum sem teljast í hundruðum trilljóna. Örverurnar eru að störfum allan sólarhringinn, þær verja okkur gegn utanaðkomandi skaðvöldum, framleiða ýmis vítamín,fitusýrur og boðefni s.s. seratónín og dópamín og búa til orku úr trefjum fæðunnar sem við neytum. Rannsóknir hafa sýnt að þarmaflóran hefur margs konar áhrif á heila-og taugakerfið sem og ónæmis- og hormónakerfi okkar og sé ekki síður mikilvægt líffæri en heilinn og hjartað.  Röskun á jafnvægi flórunnar getur leitt til bólgumyndana í líkamanum og stuðlað að þróun langvinnra sjúkdóma  (2,3) .

Samsetningin breytist um 60 ára aldurinn

Þarmaflóran er síbreytileg og í stöðugri þróun út æviskeiðið. Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að eftir því sem við verðum eldri (upp úr sextugu) fer samsetning hennar að breytast til muna. Þá dregur marktækt úr fjölbreytileika örveruflórunnar og hlutfall vinveittra baktería minnkar og hlutfall skaðlegra baktería eykst. Vísbendingar eru um að þættir svo sem aukin streita, minni hreyfing, aukin inntaka sýklalyfja, breyttar matarvenjur þ.e. minna fjölbreytt fæði eigi  hér stóran þátt. Einnig að breytingar verði á meltingarveginum, þannig að bakteríur sem eru okkur vinveittar eigi erfiðar uppdráttar í þörmunum(3,4).

Þessar niðurstöður gefa sterklega vísbendingu um að eftir því sem við eldumst þurfum við að huga betur að þarmaflórunni en oft áður, hvernig við getum haft áhrif jafnvægi hennar og þróun þannig að hún halda áfram að vinna okkur til góðs.

Hvað getum við gert til að efla þarmaflóruna á efri árum?

Þarmaflóra meltingarvegarins nærist á því sem við veljum að láta ofan í okkur. Það er því mikilvægt að huga að hollustu fæðunnar, forðast mikinn sykur óhóflega kaffidrykkju og unnar matvörur. 

Gerlaríkt fæði hefur þann kost að innihalda vinveittar bakteríur fyrir þarmaflóruna og þar er jógúrt, AB mjólk og súrmjólk okkur helst kunnuglegast. Kefír er gerjaður mjólkurdrykkur sem nýlega hefur bæst á markaðinn hérlendis en hann hefur fólk á Kákasus svæðinu notað sér til heilsubóta í aldaraðir.

Súrkál hefur verið að ryðja sér til rúms hérna heima og nú er hægt að fá nokkrar tegundir íslenskrar framleiðslu í matvörubúðum.  Það er líka um að gera að prófa e-ð nýtt af nálinni s.s. combucha (gerjað svart te) gosdrykkur sem til er með mismunandi bragðtegundum, miso (mauk úr gerjuðum sojabaunum) og chimci (gerjað kínakál). Svo má ekki gleyma íslenska súrmatnum og mysunni sem fer líka einkar vel í þarmaflóruna.

Trefjaríkur matur styður við vinveittar bakteríur með að veita þeim þá næringu sem þær þurfa til að dafna. Fjölbreytt trefjaríkt grænmeti,hnetur,fræ,bygg, hafrar og hýðishrísgrjón ætti því að rata á diskinn sem oftast.

Það getur einnig verið ráðlegt að taka inn mjólkursýrugerla reglulega til að efla og viðhalda breidd þarmaflórunnar. Þeir eru seldir í hylkjum til inntöku og má nálgast í flestum apótekum og heilsuverslunum.

Streita hefur einnig skaðleg áhrif á jafnvægi flórunnar, því þarf huga að þeim þáttum sem næra okkur andlega og líkamlega. Regluleg hreyfing, góður nætursvefn, útivera, núvitund  og samvera með öðrum skiptir því einnig miklu máli.

Rannsóknir í gangi

Hér að framan hefur einungis verið stiklað á stóru um þetta  efni, margt er enn óljóst og mikil gróska er í rannsóknum á þessum vettvangi sem áhugavert verður að fylgjast með í framtíðinni. Sem dæmi má nefna að er nú í gangi dönsk rannsókn á 245 einstaklingum yfir 65 ára. Þátttakendum er skipt í þrjá hópa sem fylgja mismunandi fæði og leiðbeiningum um hreyfingu. Sýni úr þarmaflóru þátttakenda eru svo borin reglulega saman í þeim tilgangi að greina betur hvaða áhrif fæða og hreyfing á efri árum hefur á þarmaflóruna og hvort tengsl séu milli samsetningar hennar og þróun langvinnra sjúkdóma (5).

Löng og hlykkjótt leið

Meltingarvegurinn  liggur frá munni til endaþarms og hefur líkt og aðrir vegir það hlutverk að færa hluti úr stað og leiðin er oft löng og hlykkjótt. Einhver stopp og jafnvel tafir geta verið á leiðinni og færð fer eftir veðri og vindum.  En hlutverk hans og þá sérstaklega samspil þarma og þarmaflóru við líðan okkar og heilsu er mun flóknara.  Ef þig langar að fræðast betur um næringu og þarmaflóruna, bendi ég á síðuna www.jorth.is sem hún Birna G. Ásbjörnsdóttir heldur úti en þar er að finna hafsjó af fróðleik í formi viðtala greina og stuttra pistla.

Tengdar greinar