Hvað er vöruhús tækifæranna ?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Við rákumst á umfjöllun á alnetinu um „vöruhús tækifæranna“ og rak forvitni til að vita hvað það væri og fyrir hverja. Við heyrðum í henni Hjördísi Hendriksdóttur sem er formaður stjórnar Vöruhúss tækifæranna og spurðum hana út í málið.

Vöruhús tækifæranna er vefgátt þar sem vistaðar eru   hugmyndir og tækifæri sem er sérstaklega ætlað  að nýtast þeim sem vilja undirbúa og móta sitt þriðja æviskeið.  Bætt lýðheilsa Íslendinga skilar sér í  ört vaxandi hópi fólks á þriðja æviskeiðinu, þ.e. 50 ára og eldri. Þessi hópur, sem nær hærri lífaldri en forverar þeirra, er yfirleitt bæði með löngun og getu til að njóta þess að vera virkir þegnar í samfélaginu þegar árin færast yfir.

Vöruhús tækifæranna var þróað í evrópsku samstarfi Háskóla þriðja æviskeiðsins – U3A Reykjavík með styrk frá Erasmus+ áætlun ESB og voru þrjú önnur evrópsk vöruhús sett upp samhliða hina íslenska en þau eru ekki starfrækt lengur. Öll vinna við Vöruhús tækifæranna er unnin í sjálfboðastarfi.

Hvernig er vöruhús tækifæranna byggt upp ?

Vöruhús tækifæranna er byggt upp eins og venjulegt vöruhús eða lager með rekkum og hillum. Rekkarnir standa fyrir sex meginflokka vara/tækifæra sem er að finna í hillunum. Hægt er að finna innihald rekkanna með því að smella á Tækifæri í valröndinni efst á forsíðunni eða með því að velja úr einhverju af boxunum sex neðar á síðunni. Það er einnig hægt að finna vörur með því að slá að slá inn leitarorð að eigin vali.

Fyrir hverja er það ? Þarf fólk að skrá sig sérstaklega í vöruhúsið eins og í félag ?

Vöruhús tækifæranna er einungis að finna á á netinu. Það er öllum opið og gjaldfrjálst þó að markhópurinn sé fyrst og fremst fólk á þriðja æviskeiðinu sem vill auðga líf sitt og feta nýjar slóðir í lífinu á einn eða annan hátt. Auk þess heldur Vöruhús tækifæranna úti facebook  https://www.facebook.com/voruhustaekifaeranna þar sem vakin er athygli á áhugaverðum viðburðum, ýmist á vegum U3A Reykjavík eða annarra.

Fyrsta þriðjudag í mánuði gefur Vöruhús tækifæranna út rafrænt Fréttabréf. Allir geta gerst áskrifendur gjaldfrjálst að Fréttabréfinu með því skrá netfang sitt á: https://voruhus-taekifaeranna.is/frettabref-mailchimp-skraning/

Við þökkum Hjördísi kærlega fyrir að útskýra fyrir okkur hvernig Vöruhúsið virkar og hvetjum að sjálfsögðu alla til að fara inn á vefsíðuna þeirra og fésbókina og skoða málið.

Tengdar greinar