Það er líklegast kynslóðamunur á því hversu auðvelt fólki finnst að hrósa og hafa orð á því jákvæða í umhverfinu. Leiða má líkum að því að það sé eðlislægara fyrir yngra fólk en það má alltaf æfa sig. Það hefur hvetjandi áhrif á flesta að fá hrós en það skiptir máli hvernig það er gert. Það þarf að vera meining á bak við það og það þarf að útskýra fyrir hvað er verið að hrósa. “Þú ert svo frábær”.. er góð byrjun en bættu svo við af hverju viðkomandi er frábær, hvað gerði hann sem er þess valdandi að hann á þetta hrós skilið ? Gott hrós er jákvætt orðað, einlægt og veitt eins fljótt og hægt er eftir að tiltekin hegðun hefur átt sér stað eða eftir að auga hefur verið komið á það sem er jákvætt. Gott hrós getur breytt andrúmsloftinu á einu augabragði og gert öll samskipti og líðan mun betri.
Prófaðu um helgina að taka einn klukkutíma, einn dag eða alla helgina í að æfa þig í að horfa á allt það jákvæða í umhverfinu og hjá fólkinu í kringum þig og hafa orð á því. Ef þú býrð einn/ein hrósaðu þá sjálfum þér, það má líka. Það mun koma á óvart hversu vel þér sjálfum á eftir að líða við þessa æfingu.