Maður spyr sig hvort maður sé ekki maður með mönnum nema að hafa farið á gosstöðvarnar, slíkur er fjöldi þess fólks sem þangað hefur farið síðan byrjaði að gjósa þann 19.marz síðastliðinn.
Eitt er víst að ef á að fara þangað gangandi þarf að byrja á að velta fyrir sér hvort raunverulegt gönguform sé til staðar. Gangan er yfir hraun og ekki beint þægindaganga, áætla þarf 3-4 tíma í göngu fyrir meðalvant göngufólk. Huga þarf vel að skóbúnaði og öðrum útbúnaði, klæðnaði og nesti. Athuga þarf líka gaumgæfilega hvernig veðurspáin er áður en lagt er í hann. Síðan þarf að pæla í hvort það sé gasmengun á svæðinu, vera með vindinn í bakið, passa upp á að ofkælast ekki og þreytast ekki um of. Síðan þarf að halda sig við hæðir og hryggi og forðast lægðir og dældir. Svo þarf að passa upp á að týna ekki ferðafélögunum og villast af leið. Best er líka að vera búinn að tékka á því hvort björgunarsveitin sé ekki örugglega mætt á staðinn ef eitthvað skyldi út af bregða því símasamband er takmarkað. Auðvitað þarf svo líka að vera á varðbergi gagnvart því ef ný gossprunga skyldi opnast undir fótum þér.
En ef þú nennir ekki þessu veseni og að passa upp á þetta allt saman eða treystir þér ekki þá er það bara allt í lagi. Þú getur til dæmis bara horft á beina útsendingu í sjónvarpinu frá gosinu. Ég ætla að láta mér nægja að horfa á Jökul í Kaleo á gosstöðvunum og hlusta á hans frábæru tónlist með ótrúlegt sjónarspil gossins í baksýn.