Langvinn lungnateppa (LLT) er algengur sjúkdómur hjá eldra fólki og algengustu fyrstu einkennin eru mæði og hósti sem oft er mestur á morgnanna. LLT er samheiti yfir tvo sjúkdóma, lungnaþembu og langvinna berkjubólgu. Algengið á Íslandi af LLT 2007 var 18%.
Mikilvægt er að LLT sé greind á fyrstu stigum
Langt gengin LLT hefur afar slæm áhrif á lífsgæði og til mikils er að vinna að greina sjúkdóminn á fyrstu stigum til að hindra að hann þróist áfram. Greining fer fram í heilsugæslu með öndunarmælingu (spírómetríu. Mælt er hlutfall fráblásturs á 1 sekúndu (FEV1) og heildarrúmmáls (FVC) eftir notkun á berkjuvíkkandi lyfi. Ef hlutfall milli FEV1 og FVC er lægra en 70%, og batnar ekki við berkjuvíkkandi lyf, er um LLT að ræða. Minnkun á fráblæstri í prósentum og svo á síðari stigum súrefnisþörf skiptir LLT í 4 stig, GOLD-1 (vægur sjúkdómur), GOLD-2, GOLD-3 og GOLD-4 (mjög alvarlegur sjúkdómur).
Þegar sjúkdómurinn versnar eykst mæði, súrefnismettun versnar, sumir verða bláir á vörunum, gönguþol minnkar og margir upplifa erfiða þreytu. Á allra síðustu stigum grennast margir sjúklingar þar sem sjúkdómurinn krefst svo mikillar orku.
Aðaláhættuþátturinn eru reykingar
Aðaláhættuþáttur LLT eru reykingar og mikilvægasta meðferð sjúkdómsins á öllum stigum er reykbindindi. Það er ekki auðvelt að hætta að reykja svo ég mæli með að leita sér aðstoðar á heilsugæslu og fá samtalsmeðferð og jafnvel lyfjameðferð.
Á fyrsta stigi sjúkdómsins eru notuð fljótvirk berkjuvíkkandi við versnanir en eftir því sem sjúkdómurinn versnar eru lagðar til 2 tegundir af langvinnum berkjuvíkkandi lyfjum og innúðasterum daglega. Við versnanir getur þurft að auka skammtana af innúðalyfjum og stundum þarf að nota steratöflur og sýklalyf.
Lungnaendurhæfing hefur gefið góða raun og eykur lífsgæði mikið. Lögð er áhersla á styrktaræfingar, öndunaræfingar og æfingar stöðuvöðva sem styðja við öndun. Í sumum rannsóknum eru áhrif þjálfunar svipuð og lyfjanna. Hjá veikasta fólkinu er gott að þjálfun sé í heimahúsi til að spara orku við flutning til og frá þjálfunarstaðar.
Í Svíþjóð fer heimaspítali gjarnan heim til að sinna fólki með langt genginn sjúkdóm
Þegar LLT kemst á lokastig þarf að gefa fólki súrefni i heimahúsum og jafnframt tryggja aðgengi að hjúkrunar- og læknisþjónustu fljótt, t.d. með heimahjúkrun. Ég hef sinnt mörgum sjúklingum með LLT á vegum heimaspítalans í Gautaborg. Þar sem þessir einstaklingar eru viðkvæmir fyrir sýkingum er afar mikilvægt að þeir fái mat og lyf hratt og örugglega.
Langvinna eftirlitið hjá einstaklingum með LLT er hér í höndum heimahjúkrunar og heilsugæslu og göngudeild lungnalækninga.
Hlutverk heimaspítalans er að sinna versnunum og hálfbráðu ástandi í samvinnu við utanspítalaþjónustu og ofangreinda aðila. Mjög oft getur snögg meðferð við versnun tryggt að einstaklingurinn getur fengið meðhöndlun heimavið, stundum með meira súrefni en áður í samvinnu við súrefnismóttöku Sahlgrenska sjúkrahússins. LLT á síðari stigum er ólæknandi og á að nálgast sem áherslum einkennameðferðar, með öðrum orðum áherslum líknandi meðferðar. Einkennastjórnun og lífsgæði sjúklings þurfa að vera í fyrirrúmi.
Þverfagleg teymisvinna og að virða óskir einstaklingsins um hvar þeir vilja vistast og hvaða meðferð þeir vilja þyggja er mikilvæg.
Heimildir
Bryndís Benediktsdóttir: Hversu algeng er langvinna lungnateppa? Íslensk faraldsfræðirannsókn. Læknablaðið, 2007/93
Jóna Bára Jónsdóttir. Langvinn lungnateppa og aldraðir. Tímarit hjúkrunarfræðinga.