Að minnsta kosti helmingur eldra fólks sem býr heima er með langvinna verki og 80% af þeim sem búa á hjúkrunarheimili eiga við sama vanda að stríða. Algengasta orsökin er slitgigt í ýmsum liðum. Verkir hafa fjölþætt áhrif á líf fólks og geta ýtt undir þunglyndi og kvíða, truflað sambönd og dregið úr líkamlegri og andlegri færni.
Verkjum er oft skipt í :
1) vefræna verki (vegna ertingu sársaukaviðtaka í vef við t.d. stungu eða krabbamein)
2) taugaverki (þegar taugar skaðast)
3) verkir vegna starfrænnar truflunar (oftast við hreyfingu sléttra vöðva eins og í meltingarfærum)
4) verkir af sálrænum toga
5) verkir af óþekktum toga
Til að meðhöndla langvinna verki er mælt með marghliða meðferð, gjarnan með þverfaglegu teymi, með blöndu af lyfjameðferð, sjúkra- og iðjuþjálfun, endurhæfingu og sálfræðimeðferð. Í einstaka tilvikum eru notuð sérhæfð inngrip svo sem sterastungur í liði. Við mikla slitgigt í hnjám eða mjöðmum hjálpa liðaskipti oft.
Lyf sem eru notuð í verkjameðferð virka flest gegnum það að stöðva sársaukaboð í vefjum eða í mænu. Staðbundin verkjalyf eru parasetamól, bólgueyðandi lyf svo sem íbúfen og opíóðar sem eru flestir afleiður af morfíni. Bólgueyðandi lyf hafa ýmsar aukaverkanir hjá öldruðum svo sem blæðingar í meltingarvegi, hækkaðan blóðþrýsting og geta skert nýrnastarfsemi.
Hættan er mest hjá þeim sem taka blóðþynnandi lyf, eru með hjarta- og/eða nýrnabilun og við mjög háan aldur. Vegna þessa er parasetamól yfirleitt notað sem fyrsta lyf. Ópíóðar eru ávanabindandi og hafa skammtatengdar aukaverkanir svo sem hægðatregðu og slævingu. Stundum er þó nauðsynlegt að nota slík lyf. Þunglyndislyf geta hjálpað í verkjameðferð, bæði með áhrifum á þunglyndi sem getur fylgt verkjunum, sem og með beinum áhrifum á flutning sársaukaviðbragða í mænu. Við taugaverkjum eru notuð lyf sem einnig eru notuð í flogaveiki.
Líkamsþjálfun og meðferð sjúkraþjálfara eru lykilþáttur í flestri verkjameðferð
Eftir mat og greiningu á orsök og tegund verks er líkamsþjálfun og meðferð sjúkraþjálfara lykilþáttur í flestri verkjameðferð. Dæmi um þjálfun er styrktarþjálfun og stöðugleikaæfingar. Iðjuþjálfarar aðstoða við val og notkun hjálpartækja sem eru oft nauðsynleg til að minnka áhrif verkja á daglegt líf. Sjálfsmeðferð við verkjum hefur verið skoðuð í mörgum rannsóknum. Slíkar rannsóknir eru erfiðar í framkvæmd vegna mismunandi meðferða og skilgreininga en ýmsar aðferðir eru líklegar til að hjálpa. Má þar nefna að halda líkamanum í sem bestu formi, ofgera sér ekki og draga úr spennu í líkamanum með slökun.
Heimildir
Schwan et al: Chronic Pain Management in the Elderly. Anesthesiology Clinics 2019 Sept; 37 (3):547-560
Hadjistavropoulos. Self-Management of Pain in Older Persons: Helping People Help Themselves. Pain Medicine April 2021, 13 (suppl_2): S67-S71