Lífslíkur Íslendinga hafa aukist jafnt og þétt

eftir Ritstjórn

Tölur Hagstofunnar sýna að bæði meðalkarlinn og meðalkonan á Íslandi geta vænst þess að ná yfir 80 ára aldri sem er með því mesta sem gerist í Evrópu. Þá hefur barn sem fæðist í dag meiri líkur en minni á að verða 100 ára. Á heimasíðu Háskóla Íslands er haft eftir Ólöfu Guðný Geirsdóttur dósent í næringarfræði:

„Að eldast með reisn þýðir að eiga gott og gefandi líf alla ævi, helst í sjálfstæðri búsetu,“ segir Ólöf sem vinnur ásamt samstarfsfólki sínu að því að greina hvað þættir í lífsstíl okkar geta tryggt farsæla öldrun eins og það er kallað. „Hérna skiptir máli að eiga gott líf helst alla ævi en ekki endilega sem lengsta ævi. Því er það svo mikilvægt að halda góðri heilsu, bæði líkamlegri, andlegri og félagslegri, sem er talin vera undirstaða þess til að geta notið lífsins.“

Ólöf hefur helgað sinn vísindaferil rannsóknum á heilsu aldraðra og hvernig er hægt að koma í veg fyrir færnitap þessa hóps með lífstílsþáttum eins og mat, næringu og hreyfingu. Hún bendir á að lítið hafi verið rannsakað hvort forsendur farsællar öldrunar skýrist að hluta til af vexti og þroska ásamt heilsu og lífsstíl snemma á lífsleiðinni. Úr því vilji rannsóknahópurinn sem kemur að verkefninu bæta. „Með því að skoða langtímaspágildi fyrir þær heilsufarslegu breytur, s.s. líkamlega og andlega færni, sem hægt er að hafa áhrif á með lífsstílsbreytingum er mögulega hægt að hafa áhrif á þætti sem gætu skipt máli varðandi farsæla öldrun,“ bætir Ólöf við.

Ólöf segir einnig „Ef við getum sýnt fram á hvaða þættir í lífsstíl fólks hafa jákvæð áhrif á farsæla öldrun og hverjir hafa neikvæð áhrif getum við sett fram ráðleggingar sem gætu komið í veg fyrir ótímabært andlegt og eða líkamlegt færnitap fólks og um leið jafnvel sett tón fyrir forvarnastefnu stjórnvalda í þessum efnum. Þetta myndi ekki aðeins auka lífsgæði hvers og eins einstaklings heldur má leiða líkur að því að kostnaður við heilbrigðis- og/eða öldrunarþjónustu myndi ekki aukast með auknum fjölda aldraða í samfélaginu heldur jafnvel minnka til framtíðar,“ segir Ólöf um ávinning rannsóknarinnar.

Fréttina alla má lesa hér

Tengdar greinar