Má byrja að undirbúa jólin strax ?

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Um mánaðarmótin fóru að heyrast í fjölmiðlum endurteknar auglýsingar um jóla-þetta og jóla-hitt.  Geitin í Ikea fór upp í október og Costco byrjaði að selja jólaskraut í september. Auglýsingar um jólatónleika og jólahlaðborð eru orðnar allsráðandi. Byrjað er að skreyta búðarglugga og jólavörur í hillum verslana taka æ meira pláss. Margir fussa og sveia yfir þessu því það eru nú þegar þetta er skrifað 48 dagar til jóla. Sumum finnst þetta merki um græðgi verslunarmanna og að ekki eigi að byrja á undirbúningi og umræðu um jólin fyrr en í byrjun desember.

En er þetta ekki bara í góðu lagi ? Er ekki bara huggulegt að sjá ljós í glugga í skammdeginu ? Ættum við ekki að reyna að njóta þess að eiga desember streitulausan og klára allt jólastússið í nóvember ? Kaupa jólagjafirnar, það sem vantar upp á skrautið, baka og þrífa skápana sem fyrst. Geta svo eytt tímanum í samskipti með nánustu fjölskyldu og vinum í desember. Farið streitulaus á jólatónleika eða horft á allar jólamyndirnar sem við ætlum okkur alltaf að komast yfir í desember. Þetta er árstíminn fyrir kertaljós, heitt kakó, fallega tónlist og kósý samveru.

Við getum líka notað desembermánuð í að íhuga hvað við erum ánægð með frá árinu sem er að líða og sett okkur markmið fyrir næsta ár. Aldur er bara tala mælir með að setja heilsueflandi þætti og félagsleg tengsl inn í markmið fyrir árið 2022.

Tengdar greinar