Mannvirðing, sjálfsákvörðunarréttur og persónumiðuð þjónusta – Öldrunarþjónusta í heimahúsi

eftir Guðný Stella Guðnadóttir

Sumir einstaklingar sem ég hef hitt og sumar vitjanir í heimahús hér í Gautaborg sitja mjög fast í minningunni. Það hljómar kannski einkennilega en það getur verið mjög gefandi að sinna afar veiku fólki á síðustu vikunum í lífinu þó að það sé samtímis sorglegt og erfitt.

Ég hitti einn háaldraðan mann með alvarlegan lungnasjúkdóm og heimasúrefni eftir að fjölskyldan hringdi á sjúkrabíl. Hann var með COVID-19 og fannst erfitt að anda. Fyrsta meðferð var veitt af sjúkraflutningamönnum, hann fékk innúðalyf og meira súrefni. Ég ásamt hjúkrunarfræðingi í heimasjúkrahúsi Sahlgrenska spítalans hittum hann svo nokkrum tímum seinna ásamt hjúkrunarfræðingi frá heimahjúkrun sem hafði sinnt honum í mörg ár.

Það var okkur fljótt ljóst að hans lungnasjúkdómur var á líknandi stigi áður en hann fékk COVID-19 og hann hafði verið rúmliggjandi í ár. Hann átti yndislega fjölskyldu og fékk margar heimsóknir frá fjölskyldunni og sinnti áhugamálum sínum. Þrátt fyrir fyrir mikil veikindi bjó hann við góð lífsgæði. Honum hafði þó hrakað síðustu mánuðina með versnandi minnni og versnandi öndun og vildi gjarnan sofa meiri hlutann af deginum.

Ég átti langt samtal við hann þar sem hann sagði beint út að hann vildi ekki undir neinum kringumstæðum flytjast á spítala en jafnframt ekki deyja. Ég spurði hann þá hvort hann vildi þiggja meðferð við COVID-19 í heimahúsi og m.a. fá meira súrefni og lyf í æð og innúðalyf sem hann þáði. Hann fékk 10 L af súrefni heima í samvinnu við súrefnisþjónustu Sahlgrenska sjúkrahússins og lungnalækna. Hann fékk öll stuðningslyf við COVID-19 sem hann hefði fengið á sjúkrahúsi en vissulega var ekki hægt að hafa eins mikið eftirlit heimavið og á sjúkrahúsi. Þarna fékk þessi einsstaklingur meðferð á sínum forsendum. Fyrstu daganna sinnti heimahjúkrun honum ásamt heimasjúkrahúsinu. Frá spítalanum komu öldrunarlæknir og ýmist öldrunarhjúkrnarfræðingur eða bráðahjúkrunarfræðingur í vitjanir. Því miður versnaði ástand hans og lífslokameðferð hófst. Þá færðist hann inn í sérhæft líknarteymi þar sem hann var með erfið einkenni og þurfti aðgengi að læknisþjónustu allan sólarhringinn, sem og allt að 10 vitjanir hjúkrunarfræðings á dag, þ.m.t. næturheimsóknir.

Hann lést heima, samkvæmt sínum óskum, í faðmi fjölskyldunnar.

Heilbrigðisráðuneytið gaf út í júlí í fyrra „Drög að stefnu um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða“. Þar er margt gott að finna og margar umsagnir m.a. frá félagi öldrunarlækna, félagi öldrunarhjúkrunarfræðinga og yfirmanni SELMU, sérhæfðrar heimahjúkrunar í Reykjavik.

Ein augljós áhersla allra aðila er að stórauka þurfi meðferð sem veitt er í heimahúsi og sjá til þess að þjónusta við aldraða sé samfelld á milli þjónustustiga. Sérstaka áherslu þarf að leggja á þjónustu við þá sem eru mest hrumir og fjölveikir og með mikla umönnunarþörf.

Í næstu greinum mun ég fjalla um framtíðarsýn fyrir þjónustu við þennan veika hóp. Gott er að horfa til svæða þar sem þjónusta virkar vel og skipta samfelldri öldrunarþjónustu upp í:

1) Heilsugæsla og utanspítalaþjónusta, 2) bráðamóttaka, 3) inniliggjandi á sjúkrahúsi og 4) göngudeildarþjónusta og sérgreinaþjónusta sjúkrahúsa.

Heimildir: Drög að heilbrigðisstefnu

Tengdar greinar