Meltingarónot eru nokkuð algeng og einkennast af kviðverkjum, uppþembu, miklum vindgangi og/eða breyttum hægðum. Meltingarónot geta haft áhrif á líkamlegt, andlegt og félagslegt ástand og geta þannig haft áhrif á lífsgæði og fjárhagslegt ástand einstaklinga.
Ef einstaklingar kannast við ofangreind einkenni getur verið gott að huga að nokkrum atriðum:
- Reglulegu máltíðamynstri
- Borða þarf á tveggja til fjögurra klukkustunda fresti
- Fjölbreyttri næringu
- Ekki mjög stórar máltíðir í einu
- Borða skal hægt og tyggja matinn vel
- Getum gleypt mikið loft ef borðað er hratt eða ekki tuggið vel
- Huga að góðum svefni, hreyfingu og andlegri vellíðan
- Draga úr stressi – Stress og streita getur aukið mikið á meltingarónot
- Slökun og hugleiðsla getur hjálpað til við að draga úr streitu og hafa þannig áhrif á meltingareinkenni
Hægðir
Hægðir geta verið mismunandi á milli einstaklinga sem og tíðni þeirra. Reglulegt máltíðamynstur getur haft áhrif á meltingareinkenni og hægðir.
Gott getur verið að skoða Bristol hægðaskalann hér að neðan til þess að meta hægðir.
Hægðatregða
Hægðatregða er nokkuð algeng og er talið að um 1 af hverjum 7 þjáist af hægðatregðu. Hægðatregða getur haft áhrif á lífsgæði einstaklinga. Hægðatregða er skilgreind sem hægðalosun sjaldnar en þrisvar í viku, en þá er einnig notast við Bristol hægðaskema til að meta hægðir.
Ástæður hægðatregðu geta verið mismunandi á milli einstaklinga. En mögulegar ástæður geta verið:
- Hreyfingarleysi
- Óreglulegt máltíðamynstur
- Breyting á rútínu
- Streita, kvíði og/eða þunglyndi
- Ekki nóg af trefjum í fæðunni
- Of lítil vökvaneysla
- Lyf
- Bætiefni
- Að hunsa þörfina að fara á klósettið
- Lítið næði á salerni
Ráð við hægðatregðu:
- Auka trefjar í fæðunni
- Regluleg hreyfing
- Borða reglulega yfir daginn
- Drekka vel af vatni
- Gefa sér góðan tíma á klósettinu
- Nota koll undir fætur
- Huga að sálarlífinu og góðum svefni
- Taka Husk
- Fara á klósettið þegar þörfin kemur
Stundum þarf að nota Magnesium medic til að hjálpa til við að losa hægðir eða önnur hægðalyf, en gott er að gera það í samráði við heimilislækni, sérstaklega ef þörf er á til langs tíma.
Hækkun undir fótum á meðan hægðalosun á sér stað hjálpar til við að koma frá sér hægðum á eðlilegri hátt og að klára hægðalosun.
Niðurgangur
Niðurgangur er skilgreindur sem lausar eða vatnsríkar hægðir a.m.k. þrisvar sinnum á sólarhring. Ef um langvarandi niðurgang (meira en viku) er að ræða er mikilvægt að leita til læknis. Mikilvægt er að meðhöndla langvarandi niðurgang til þess að koma í veg fyrir mögulegan næringarskort, þurrk og orkuleysi. Ef grunur leikur á að ákveðinn matur þolist illa getur verið gott að hafa samband við næringarfræðing.
Ástæður fyrir niðurgangi geta verið margskonar, t.d.:
- Streita, stress, þunglyndi
- Ferðalög
- Sýklalyf
- Bakteríu- eða veirusýking
- Bólgusjúkdómar í meltingarvegi
- Iðraólga
- Lyf
- Matur sem þolist illa
Hvað er til ráða:
- Bæta vökvatap – ekki bara vatn, nota gatorade eða steinefna freyðitöflur til að bæta upp steinefnatap
- Borða reglulega yfir daginn
- Takmarka mat og drykki sem geta örvað ristilinn ef niðurgangur er mikill:
- Sterkur matur, fituríkur matur, kaffi og áfengi
- Borða mat sem þolist oft vel og bæta fjölbreytni smám saman:
- Fiskur, súpur, brauð, egg, soðið grænmeti
- Prófa Husk
- Forðast skal nikótín og tyggjó – það getur örvað ristilinn
- Grindarbotnsæfingar eru mikilvægar