Jólin eru yfirleitt mikil matarhátíð og oft er mikið um mat sem er ekki borðaður á öðrum tíma árs. Það er gott að njóta matarins yfir jólin og margar skemmtilegar hefðir sem fylgja jólunum hjá mörgum.
Það er vel hægt að njóta jólanna í botn og njóta þeirra hefða og matar sem þessum árstíma fylgir án þess að ganga fram af sér í mat, drykk og hreyfingaleysi.
Hjá mörgum teygjast jólin og jólaundirbúningurinn í einn til tvo mánuði en ekki yfir nokkra daga með tilheyrandi matarveislu. Piparkökurnar byrja að koma í búðir í lok september og boðið er upp á hangikjöt í mötuneytum allan desember. Hjá mörgum breytist máltíðamynstur mikið í desember og eru eru margir á stöðugu narti yfir daginn og eru síður að setjast niður til þess að fá sér máltíð og verða oft ekki svangir eða saddir.
Förum varlega í saltið!
Mikið af jólamat inniheldur mikið af salti og eru margir að borða mjög saltríkan mat marga daga í röð. Mikið salt í fæðunni getur haft áhrif á að blóðþrýstingur getur hækkað og getur það aukið bjúgmyndun.
Mikið er af söltum og reyktum mat ásamt öðru söltu góðgæti eins og t.d. snakk, lakkrís o.fl. Það getur verið of mikið fyrir marga að fá sér salta skötu eða saltfisk á Þorláksmessu (jafnvel í hádegis- og kvöldverð), hamborgarhrygg á aðfangadag og svo hangikjöt á jóladag. Margir eru svo nartandi í afganga í hádegi og yfir daginn.
En hvað er til ráða ef við erum ekki tilbúin að sleppa þessum hefðum?
- Magnið sem við borðum af saltríkum mat skiptir máli. Er hægt að minnka skammtinn af saltríka matnum og hafa meira meðlæti sem inniheldur minna af salti. Borðaðu hægt og njóttu hvers bita.
- Í öðrum máltíðum dagsins að velja saltminni mat. Slepptu því að fá þér afgang af saltríka matnum í hádegismat líka.
- Drekka vatn – munum eftir vatninu reglulega yfir daginn
- Ekki salta matinn aukalega – Því meira sem við notum af salti þeim mun meira salt vilja bragðlaukarnir. Prófaðu að minnka að salta
Leið að heilsusamlegri desember
- Borðaðu reglulega yfir daginn – Byrjaðu daginn á staðgóðum morgunverði og borðaðu reglulega yfir daginn
- Hafðu grænmeti og ávexti sem hluta af máltíðum – Hafðu grænmeti með heitum máltíðum, skerðu niður ávexti til þess að borða yfir daginn
- Borðaðu í meðvitund – Setjumst við borð og borðum, ekki fyrir framan sjónvarp eða með aðra truflun
- Borðaðu hægt, tyggðu matinn og finndu bragðið – Ef þú borðar hratt prófaðu að leggja frá þér hnífapörin milli bita og taka þau aftur upp þegar þú hefur kyngt síðasta bita
- Mundu eftir vatninu
- Bjóða upp á smákökur, konfekt og annað gotterí á ákveðnum tímum í stað þess að hafa þetta stöðugt fyrir framan þig
- Hreyfðu þig – Fara í gönguferð eða synda. Ef það er mikil hálka er í mörgum sveitafélögum hægt að fara að ganga í knattspyrnuhöllum eða öðrum íþróttamannvirkjum