Á vef Alzheimersamtakanna www.alzheimer.is birtir Jón Snædal öldrunarlæknir reglulega pistla. Við fengum leyfi þeirra og Jóns Snædals til að birta nýjusta pistilinn hér sem gefur okkur von um að lyf sem hægt geta á alzheimersjúkdómnum séu í vændum
Síðasti áratugur síðustu aldar einkenndist af bjartsýni og miklar líkur þóttu á að góð meðferð við Alzheimer sjúkdómi væri handan við hornið. Fjögur lyf komu á markað á síðustu árum aldarinnar sem höfðu væg áhrif til seinkunar á framvindu sjúkdómsins. Ný tilgáta um að útfellingar á próteininu amyloid í heila væri orsök sjúkdómsins styrktist með framvindu í erfðafræði.
Þessar vonir gengu ekki eftir og næsti áratugur einkenndist af vonbrigðum. Lyfin sem voru í þróun virtust jafnvel vera hættuleg og allar tilraunir á sjúklingum voru því stöðvaðar um aldamótin. Lítið gerðist næsta áratuginn sem gaf tilefni til bjartsýni en á síðasta áratug vék svartsýnin fyrir hógværri bjartsýni.
Nú, í byrjun þriðja áratugar þessarar aldar er eins og vonirnar séu að rætast; að lyf sem hindra útfellingu amyloids próteins í heila eða hreinsa það burt hafi raunveruleg áhrif og hér verður nánar fjallað um þá þróun.
Staðan í byrjun árs 2023
Fjögur lyf sem hreinsa próteinið amyloid úr heilanum hafa ýmist lokið síðustu prófunum fyrir markaðssetningu eða eru nálægt því. Hér verður lýst stöðunni eins og hún er í byrjun árs 2023.
Lyfið aducanumab aðeins fáanlegt í Bandaríkjunum og ef fólk greiðir úr eigin vasa
Lyfið aducanumab fékk bráðabrigðaskráningu í Bandaríkjunum árið 2020 þrátt fyrir gagnrýni. Rannsóknirnar voru flóknar og var hægt að túlka niðurstöður á ýmsan hátt. Þrátt fyrir þessa skráningu fékkst enginn til þess bær aðili í Bandaríkjunum til að niðurgreiða lyfið og það er ekki fáanlegt annars staðar. Lyfið hefur því aðeins verið gefið þeim sem geta greitt það úr eigin vasa.
Lyfið lecanemap líklegt til að vera það fyrsta sem kemst í almenna notkun en það hægir greinilega á framvindunni
Lyfið lecanemab fékk bráðabrigðaskráningu vestra nú í janúar 2023. Rannsóknir voru vel uppbyggðar og niðurstöður afdráttarlausar og því líklegt að það verði fyrsta lyfið af þessum toga sem kemst í almenna notkun. Þó getur lyfið ekki læknað sjúkdóminn en hægir greinilega á framvindunni. Búið er að óska eftir fullri skráningu bæði í Bandaríkjunum og Evrópu og ef fram fer sem horfir gæti það komist í notkun hér á landi á næsta ári. Lyfið er hins vegar dýrt og ljóst að skorður verði settar við notkun þess af þeim ástæðum en það á eftir að koma í ljós. Auk þess er gjöf lyfsins flókin en það þarf að gefa með innrennsli í æð á tveggja vikna fresti og því verða sjúklingar að koma reglulega á göngudeild.
Lyfið donaznemap vekur bjartsýni
Lyfið donaznemab er á lokametrunum í rannsóknum og verða niðurstöður kynntar í vor. Þótt lokaniðurstöður séu ekki handbærar eru menn bjartsýnir á að lyfið skili tilskyldum árangri því fyrri rannsóknir hafa verið jákvæðar. Fari fram sem horfir er líklegt að það lyf fái einnig bráðabirgðaskráningu í Bandaríkjunum og ef allt gengur upp, gæti orðið full skráning í Evrópu síðla árs 2024.
Lyfið gantenerumab verður hugsanlega skoðað frekar en ekki ljóst hvort það komi til greina
Niðurstöður rannsókna með lyfið gantenerumab voru kynntar sl. haust og því miður virtist það ekki skila árangri. Hugsanlega verður það skoðað frekar en það munu líða nokkur ár þar til endanlega verður ljóst hvort það komi til greina.
Öll þessi lyf eiga að hreinsa útfellingar (amyloid) úr heilanum og það er vel staðfest að þau gera það. Samhengi virðist vera milli þess hversu mikið hreinsast í burtu og áhrifa á minni sem er rökrétt og sú staðreynd mun vera vegvísir til framtíðar.
Erum á þröskuldi nýrra tíma
Á næsta ári skýrist að hvaða leyti ný lyf verða aðgengileg og hvaða kröfur verða gerðar við notkun þeirra. Hvað sem þessu líður þá heldur leitin að betri meðferð áfram í þeim skilningi að lyf verði einfaldari og ódýrari og vonandi einnig áhrifameiri. Við virðumst því standa á þröskuldi nýrra tíma.
Jón Snædal öldrunarlæknir