Óráð

eftir Guðný Stella Guðnadóttir

Fyrir nokkrum vikum vann ég á bráðaöldrunarlækningadeild í Gautaborg og eitt atvik situr fast í minningunni. Kona á sjötugs aldri hafði verið með alvarlegt óráð í meira en mánuð. Köllum hana Evu. Einn hjúkrunarfræðingur átti afmæli og starfsfólkið safnaðist á ganginum, með grímurnar og hæfilega fjarlægð á milli eins og sóttvarnarreglur segja til um, og söng fyrir viðkomandi. Eva heyrði sönginn og stillti sér fremst og söng afmælislagið með fallegri röddu með starfsfólkinu.

Óráð kallast einnig bráðarugl og er algengt á bráðadeildum. Algengi er mismunandi á ólíkum deildum, allt frá 10-50%. Óráð er skilgreint sem skammvinnt, geðrænt heilkenni sem á sér vefrænar orsakir, með öðrum orðum líkamlegar orsakir. Það varir oftast í nokkra daga meðan líkamleg orsök er læknuð og útleysandi þættir fjarlægðir, en í vissum tilvikum gengur óráð ekki yfir á fjölda vikna eða mánaða. Óráð er alvarlegt ástand sem eykur dánartíðni sjúklinga og ýmsa fylgikvilla sjúkrahúsdvala svo sem byltna og sýkinga. Orsakir óráðs eru ekki að fullu þekktar og líklega breytilegar milli sjúklinga. Margs konar áhættuþættir auka líkurnar á óráði og eru þeir algengustu hár aldur, alvarlegir langvinnir sjúkdómar, minnisskerðing, sjón- og/eða heyrnarskerðing og fyrri saga um óráð.

Á bráðaöldrunarlækningadeildum, eins og þeirri sem ég vinn á í Gautaborg og B4 á Landaspítala, er unnið fyrirbyggjandi til að minnka líkurnar á óráði sjúklinga. Sem dæmi má nefna að sjá til að öll hjálpartæki einstaklinga eins og heyrnartæki séu til staðar, flytja sjúklinga lítið á milli herbergja, forðast ákveðin lyf sem auka líkurnar á óráði og sjá til þess að góð birta sé á herbergjum að degi til þar sem það ýtir undir eðlilega dægursveiflu. Samtímis er unnið í að lækna líkamlegar ástæður óráðsins. Starfsfólk sem kann að tala við fólk í óráði er afar mikilvægt og ég dáist mikið af þolinmæði og rósemd sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga deildarinnar. Með réttum umönnunaraðferðum má oft forðast mikla lyfjagjöf með róandi lyfjum. Öldrunarlæknar eru vanir að leita að undirliggjandi orsökum og lækna þær og fara vel í gegnum lyf og fjarlægja þau sem eru óþörf. Þar sem að óráð hefur svo alvarlegar afleiðingar er þetta starf á bráðaöldrunarækningadeildum mikilvægt

Tilfelli Evu er sérstakt þar sem ekki var hægt að lækna líkamlega sjúkdóminn, hún var með ólæknandi dreift krabbamein og auk þess ógreinda heilabilun og á líknandi meðferð. Það situr eftir hversu góða og hlýja umönnun hún fékk, m.a. var hún með yfirsetu og fékk að ganga um eins og hún vildi. Þessi umönnun gerði henni kleift að líða ágætlega þrátt fyrir erfiðar aðstæður eins og sást þegar hún einfaldlega slóst í hópinn og tók þátt í söngnum. Óráðið minnkaði svo að hún gat útskrifast heim.

Heimild og ítarefni: Steinunn Arna Þorsteinsdóttir, Tímarit hjúkrunarfræðinga 2014, 4. tbl. 90. Árg, https://www.hirsla.lsh.is/bitstream/handle/2336/337073/OradBradadeildum.pdf?sequence=1&isAllowed=y

Tengdar greinar