Heimilið
Heimilið á að vera griðarstaðurinn í lífinu okkar og því mikilvægt að okkur líði vel þar og að heimilið veiti okkur öryggi til að vera við sjálf og geta gert það sem við viljum og þurfum. Í því felst ekki einungis andlegt öryggi heldur einnig líkamlegt öryggi í formi þess að umhverfið henti okkar getu og þörfum og dragi ekki úr færni okkar til að vera sjálfbjarga í mikilvægri iðju sem gefur lífinu okkar gildi og veitir okkur lífsgæði.
Að líða vel og vera sjálfbjarga á eigin heimili
Ef það skiptir okkur máli að geta verið sjálfbjarga á eigin heimili þá er gott að velja húsnæði sem getur tekið tillit til ólíkra þarfa. Oft er gott að sjá fyrir sér hvort hægt sé að komast í öll rými heimilisins ef við t.d. fótbrotnum í hálku og þurfum að nota hækjur til að komast ferða okkar innhúss eða handleggsbrotnum. Enn betra ef við gerum ráð fyrir að geta komist í öll rýmin með því að ýta okkur áfram í hjólastól ef við myndum t.d. lærbrotna. Þetta eru frekar ýkt dæmi en ef heimilið er með gott aðgengi fyrir alla óháð getu þá telst það vera með aðgengi fyrir alla eða með algilda hönnun.
Einnig þarf að huga að lýsingu og hljóðvist til að draga úr fallhættu ef sjón og heyrn skerðist. Að sjálfsögðu getur reynst erfitt að huga að öllum þessum þáttum en ef við erum vakandi gagnvart þeim aukast líkurnar á að búa áfram á heimilinu óháð færniskerðingu. Ástæðan er sú að eftir starfslok þá eru margir sem verja meiri tíma innandyra en áður þegar ekki er þörf á að mæta til vinnu á ákveðnum tímum flesta virka daga. Til lengri tíma getur það leitt til færniskerðingar, sérstaklega ef hreyfingin veitir enga líkamlega áreynslu.
Atriði sem þarf að hafa í huga tengt heimilinu
Gott er að hafa eftirfarandi atriði í huga þegar það kemur að því að stuðla að góðu og öruggu aðgengi.
Aðkoman að heimilinu og inngangur þarf að vera án hindrana og vel upplýst. Kjöraðstæður eru þegar það er snjóbræðslukerfi í stéttinni og á bílaplaninu því þá þarf ekki að nota krafta til að moka burt snjó frá hurð og af bílaplani.
Ef það eru tröppur að húsinu eða stigi innandyra er gott að hafa handrið beggja vegna en ákjósanlegast er að velja húsnæði sem hefur engar tröppur eða stiga.Æskilegt er að útidyrahurð sé 90-100 cm breið og hurðir innandyra séu amk 80 cm á breidd.
Byltur eru algeng orsök slysa hjá eldri borgurum og geta valdið alvarlegum brotum sem er mikilvægt að fyrirbyggja. Góð lýsing og næturljós milli svefnherbergis og baðherbergis er góð byltuvörn. Mörgum finnst notalegt að hafa mottur en þær geta valdið fallhættu og því er mælst til þess að hafa engar mottur, annars mjög þunnar mottur sem eru límdar niður í gólfið.
Betra er að eiga góða sokka og inniskó sem eru festir yfir ristina og fyrir aftan ökkla ef viðkomandi er t.d. með mikinn fótakulda. Það þarf að huga að því að aðgengið sé óhindrað innandyra, sérstaklega að nauðsynlegum vistaverum s.s. baðherbergi, eldhúsi, svefnherbergi og forstofu. Besta leiðin til þess að er að tryggja að ekkert liggi á gólfinu, snúrur né annað og að gott bil sé á milli húsgagna.
Að nýta sér tæknina
Gott ráð til að tryggja hindrunarlaust umhverfi er að fá sér ryksuguróbot og láta hann ryksuga heimilið. Róbotinn mun flækjast á snúrum, fatnaði og smádóti og festast á þeim stöðum sem hafa ekki gott aðgengi svo hann getur þannig vakið athygli á því sem okkur hefur mögulega yfirsést.
Allar innréttingar og vaskar þurfa að vera í hæð sem hentar hæð íbúans og þegar það er mikill hæðarmunur á milli íbúa á heimilinu er gott að velja meðalveginn. Helstu raftæki þurfa einnig að vera aðgengileg og gott að miða við að hægt sé framkvæma athöfnina bæði standandi eða sitjandi með því að staðsetja hann ýmist inn í innréttingu eða hafa háan sökkul undir.
Salerni sem er lágt veldur þeirri hættu að fólk getur átt erfitt með að standa hjálparlaust upp af því þegar vöðvar í fótum rýrna og eykur fallhættu þegar það sest á salerni. Innangeng sturta er ákjósanleg með skriðvörn í stað sturtuklefa eða baðkers þar sem fallhætta getur myndast við það eitt að stíga í og úr sturtuklefa eða baðkari.
Þegar færni skerðist er mikill stuðningur af því að setja upp handföng við sturtuna, salernið og þess vegna við rúmið til að tryggja öryggið ásamt öðrum hjálpartækjum. Að lokum er nauðsyn að hafa reykskynjara í flestum athafnarýmum, eldvarnarteppi og slökkvitæki á vísum stað og passa að kanna amk árlega hvort búnaðurinn sé í lagi til að tryggja öryggið á heimilinu.
Aðgengi í grennd við heimilið
Það er ekki nóg að huga að athafnarými og aðgengi innandyra því flest viljum við jú komast út af heimilinu til að taka þátt í samfélaginu með okkar hætti. Hér er mikilvægt að huga að staðsetningu heimilis þannig að stutt sé í nauðsynlega þjónustu og má þar sem dæmi nefna matarverslun, apótek, útivistarsvæði, félagsstarf, sundlaug, bókasafn, samgöngur, heilsugæslu og þjónustumiðstöð. Við þurfum líka að huga að vegalengdinni á milli heimilis og staðarins sem við ætlum að fara á sem og áhrif veðurs á aðgengið.
Í umhverfinu þurfa að vera göngustígar með góðri lýsingu, bekkjum til að hvílast á með aflíðandi brún við götur og eru snjóruddir og saltaðir á veturnar.
Á veturna er mælst til þess að eiga góðan útifatnað, skóbúnað og mannbrodda þar sem veðurfar á Íslandi er síbreytilegt og hafa meðferðis göngustafi eða göngugrind til að auka öryggið ef göngufærni er orðin skert.
Að vera undirbúin er forvörn
Fyrir marga getur reynst erfitt að ákveða hvenær það er kominn tími til að fara í húsnæði sem hugar vel að breyttum þörfum og er með góðu aðgengi.
Forvörn er í raun besta aðferðin því þá erum við vel undirbúin ef aðstæður okkar breytast og það gerum við með því að hafa þessi atriði í huga þegar við skiptum um húsnæði.
Ég myndi því ekki segja að fólk á ákveðnum aldri eigi að huga að þessum atriðum þar sem aldur er bara tala en mæli með að þegar við finnum að erum farin að eiga erfitt með ákveðnar athafnir heima við að vera opin fyrir mögulegum lausnum. Þær felast í því að meta umhverfið og aðstæður, breyta og aðlaga umhverfið eða þá iðju sem þarf og fá nauðsynleg hjálpartæki eða flytja í hentugra húsnæði sem tekur tillit til þín og þinna þarfa og getur stutt þig í að eldast með farsælum hætti.
Eldvarnir – handbók heimilisins, útgefandi Eldvarnabandalagið.
http://eldvarnabandalagid.is/wp-content/uploads/2016/01/ELD_a5_inns_isl_230119_int-1.pdf
Kröfur um algilda hönnun, útgefandi Mannvirkjastofnun.
Örugg efri ár, útgefandi Slysavarnarfélagið Landsbjörg. https://issuu.com/landsbjorg/docs/sl_0418-9_o_rugg_efri_a_r_vefur