Fyrir stuttu opnuðu alzheimersamtökin Seigluna; þjónustumiðstöð fyrir einstaklinga með heilabilun og aðstandendur þeirra. Við heyrðum í Hörpu Björgvinsdóttur iðjuþjálfa og verkefnisstjóra Seiglunnar og fengum að fræðast aðeins um starfsemina.
Fyrir hverja er Seiglan og hvaða þjónustu er hægt að fá hjá Seiglunni ?
Seiglan, þjónustumiðstöð Alzheimersamtakanna er ætlað að koma til móts við þarfir fólks með heilabilun á fyrstu stigum sjúkdómsins og aðstandendur þeirra, með einstaklingsbundnum áherslum og til að viðhalda líkamlegum, andlegum og félagslegum þáttum ásamt því að stuðla að sjálfstæði og aukinni virkni. Þjónustan er veitt frá greiningu sjúkdómsins og þar til þörfin er orðin meiri fyrir annarskonar þjónustu eins og t.d. sérhæfðri dagþjálfun.
Seiglan starfar eftir hugmyndafræði iðjuþjálfunar og leggjum við áherslu á að vinna með styrkleika einstaklingsins, skapa aðstæður til að hann geti stundað sína iðju og styrkt sín félagslegu tengsl.
Hjá Seiglunni er margþætt þjónusta og fær hver og einn þjónustuþegi sína þjónustuáætlun sem unnin hefur verið í samráði við iðjuþjálfa. Áhugamál, framkvæmdageta, vilji og vanamynstur spila stærsta þáttinn í því hvernig þjónustuáætlun hvers og eins kemur til með að líta út ásamt því þjónustuframboði sem er í boði hverju sinni í Seiglunni. Við höfum upp á margt að bjóða og munum bæta við þjónustuþáttum eins og þurfa þykir. Meðal þess sem boðið er upp á má nefna umræðuhópa, fræðslu, sálfræðiþjónustu, nudd, dáleiðslu, hugræna þjálfun, handverkshópa, yoga, pútt og líkamsrækt, göngutúra í náttúrunni og kaffihúsa- og safnaferðir, söng, dans og gleði. Einnig er hægt að setjast í stofuna og t.d. lesa góða bók, spreyta sig í hugarleikfimi eða ræða um daginn og veginn. Alzheimersamtökin bjóða svo upp á ráðgjöf, stuðningshópa fyrir aðstandendur og ýmsa fræðslu sem okkar þjónustuþegar geta haft aðgang að.
Er langur biðtími eftir ráðgjöf og þjónustu ?
Nei við höfum getað tekið á móti fólki með litlum fyrirvara og stefnum að því að biðtíminn verði stuttur.
Hvað varð til þess að Seiglan var stofnuð og hverjir komu að stofnuninni ?
Alzheimersamtökin ákváðu árið 2018 að setja á oddinn það verkefni að koma yfir þau „Alzheimerhúsi“ þar sem væri í senn rekin núverandi starfsemi samtakanna ásamt því að boðið væri upp á þjónustu við fólk á fyrstu stigum sjúkdómsins, en sambærileg þjónusta hafði ekki verið til fyrir þennan hóp.
Samtökin komust í samband við stjórn Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowreglunnar á Íslandi sem þá var að skoða verkefni sem mögulega væri hægt að styrkja á þann höfðinglega hátt sem þeim einum er lagið. Á sama tíma hafði komið upp sú hugmynd og hún viðruð við stjórnvöld í Hafnarfirði hvort hluti af húsnæðinu í gamla St. Jósepsspítala í Hafnarfirði kæmi til greina.
Þremur árum síðar voru 320 m2 á þriðju hæð hússins afhentir Alzheimersamtökunum til afnota en verðmæti framlags Oddfellowreglunnar í formi framkvæmda var metið til fyrirframgreiddrar leigu í 15 ár fyrir samtökin.
Fyrir þetta verða Alzheimersamtökin Oddfellowum á Íslandi ævinlega þakklát.
Hvar er Seiglan staðsett og hver er opnunartíminn ?
Við erum staðsett á 3ju hæð í Lífsgæðasetri St. Jó, Suðurgötu 41 í Hafnarfirði. Við erum með opið mánudaga – fimmtudaga kl. 9:00 – 15:00 og á föstudögum kl. 9:00 – 12:00
Er þjónusta Seiglunnar fyrir fólk af landsbyggðinni líka ?
Staðsetningarinnar vegna nýtist Seiglan sennilega best fólki sem býr á höfuðborgarsvæðinu og í bæjarfélögum þar í kring en allir eru velkomnir til okkar sem eru komnir með greiningu og eru á fyrstu stigum sjúkdómsins burtséð frá búsetu. Við bjóðum ekki enn upp á fjarþjónustu en það er aldrei að vita hvað verður í framtíðinni.
Seiglan er á facebook HÉR og þar má m.a sjá bækling um þjónustuna og nánari upplýsingar um fyrirkomulag