Eitt af því sem stuðlað getur að betra jafnvægi, samhæfingu og betri heilsu á efri árum eru æfingar út frá Tai Chi aðferðarfræðinni. Tai Chi á uppruna sinn í 13.aldar kínverskri bardagalist en hefur þróast yfir í heilsuræktarkerfi. Líkt og í jóga eru til nokkrar útfærslur af Tai Chi en grunnurinn er sá sami sem snýr að öndun, slökun og heildaráhrifum á líkamann. Kerfið byggir upp á afslöppuðum og mjúkum hreyfingum sem þjálfa í senn huga og líkama.
Tai Chi hefur stundum verið kallað “hugleiðsla með hreyfingu” en mikið er lagt upp úr öndunartækni. Margir sem stunda Tai chi segja að lífsorkan steymi betur um allan líkamann með æfingunum og komi í veg fyrir að orkuflæðið stíflist. Þegar búið er að ná tökum á Tai chi er hægt að stunda æfingarnar hvar sem er og ekki verra ef það er gert utanhúss og anda að sér heilnæma íslenska loftinu og taka náttúruna inn í leiðinni.
Hvaða heilsubætandi áhrif hefur Tai Chi ?
Tai Chi hefur góð áhrif á huga og líkama, bætir jafnvægi og stöðugleika bæði hjá eldri aldurshópum en einnig hjá parkisonssjúklingum. Tai Chi getur dregið úr bakverkjum og eykur lífsgæði hjá þeim em eru með hjartasjúkdóma, krabbamein og aðra króníska sjúkdóma. Tai Chi hefur jákvæð áhrif á taugakerfið, öndun og meltingu. Tai Chi getur líka bætt svefngæðin. Eitt af jákvæðum áhrifum ástundunar Tai Chi þegar aldurinn færist yfir er að það getur haft fyrirbyggjandi áhrif á byltur sem er það sem margir óttast og reynist oft erfitt að vinna sig tilbaka úr. Tai Chi hjálpar til við að tengja saman hug og líkama. Þú ert meðvitaðri um öndunina, andlega og líkamlega þætti og hreyfingar allt á sama tíma. Með reglulegri ástundum á Tai Chi jafnvel bara í 20 mínútur á dag er hægt að bæta jafnvægið.
Kvíðinn yfir því að detta getur nefnilega aukið líkurnar á byltum. Fólk fer að ganga hægar og fer að veigra sér við hreyfingu sem það stundaði áður. Það getur orðið vítahringur því með því að hreyfa sig minna verður fólk stirðara og í meiri hættu á að detta. En það sem Tai Chi gerir er að kenna og æfa samhæfinguna og draga um leið úr kvíðanum við að detta.
Nýjar rannsóknir sýna einnig fram á að mittismálið minnkar með reglubundinni ástundum á Tai Chi.
Hvernig og hvar er best að byrja að stunda Tai Chi ?
Einhverjar heilsumeðferðarstöðvar á Íslandi bjóða upp á kennslu í Tai Chi en það er líka hægt að læra það sjálfur í gegnum myndbönd á netinu. Einn af kostunum við Tai Chi þjálfun er að hún þarfnast engra tækja eða tóla og hægt er að stunda æfingarnar hvar og hvenær sem er.
Með þessari einföldu æfingu frá Tommy Kirchoff getur þú tekið fyrsta skrefið í áttina að Tai Chi strax í dag :
- Byrjaðu standandi eða sitjandi og láttu hendur þínar hvíla á lærum. Ýttu tungunni mjúklega upp í góminn. Andaðu rólega í gegnum nefið og taktu tíma í hverja öndun.
- Samræmdu öndun og hreyfingar. Þegar þú dregur andann rólega inn í gegnum nefið, færðu hendurnar þínar í andlitshæð.
- Þegar þú andar rólega frá þér, færðu hendurnar rólega aftur á lærin. Slakaðu djúpt á í leiðinni
- Endurtaktu 10 sinnum.
Hér að neðan má svo sjá tvö af þeim fjölmörgum kennslumyndböndum sem finna má á netinu og kenna Tai Chi fyrir byrjendur
Unnið upp úr https://www.health.harvard.edu/staying-healthy/the-health-benefits-of-tai-chi, https://www.forbes.com/health/healthy-aging/tai-chi-for-seniors/#footnote_2,
https://www.nccih.nih.gov/health/tai-chi-and-qi-gong-in-depth
https://jamanetwork.com/journals/jama/article-abstract/2782306?resultClick=1,
https://www.nccih.nih.gov/health/tai-chi-and-qi-gong-in-depth