Á hverju ári rifja ég upp söguna sem amma mín sagði mér frá bernskujólununum sínum. Við samanburðinn fyllist ég jafnan þakklæti yfir þeim jólum sem ég á í dag. Að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur er dyggð sem eykur vellíðan. Því þakklátari sem maður er því fleiri ástæður finnur maður til að þakka fyrir. Það er lífsbætandi að koma auga á þá hluti sem hægt er að þakka fyrir.
Það að geta keypt inn hátíðarmat fyrir alla jóladagana er þakkarvert. Það má líka þakka fyrir hjálparstofnanir sem aðstoða þá sem ekki hafa tök á því. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvers vegna árið 2020 þurfi fólk að standa í biðröðum eftir að fá matargjafir, oft að skýla sér fyrir myndavélum fjölmiðla sem leitast við að ná tali af fólki í þessum erfiðum aðstæðum. Er ekki löngu búið að finna upp gjafakort til að nota í matvöruverslunum og þarf fólk ekki hvort sem er að gefa upp tekjur eða öllu heldur tekjuleysi til að fá úthlutun ? Leyfum fólki að halda reisn sinni.
Í landi þar sem náttúran fer stundum óblíðum höndum um íbúana má þakka fyrir að hafa þak yfir höfuðið og að geta verið heima hjá sér á jólunum. Hugur minn er hjá Seyðfirðingum sem þurftu að flýja bæinn sinn og hafa ekki átt afturkvæmt á heimilin sín vegna flóðanna sem urðu þar skömmu fyrir jól. Sú tilfinning að hafa undirbúið jólin heima hjá sér og vera svo skyndilega hrifsaður í burtu frá öllu út í óvissuna hlýtur að vera ólýsanlega erfið.
Ég er þakklát fyrir að geta umgengist fjölskylduna mína yfir jólahátíðina, að geta raðað í jólakúluna mína þeim sem mér þykir vænst um. Geta samt farið út og notið þess að ganga í snjónum og anda að mér fersku lofti. Víða um heim er útgöngubann í dag og enn harðari aðgerðir en á Íslandi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar og margir sem eiga um sárt að binda vegna þessa. Á Íslandi erum við heppin hversu vel hefur tekist í baráttunni við faraldurinn ef miðað er við mörg önnur lönd.
Sagan hennar ömmu
Amma mín bjó sem barn í burstabæ sem var með torfi utan á. Amma var fædd 1911 og lifði í næstum heila öld. Bærinn hennar var hitaður á þann veg að undir baðstofunni voru kýr svo hitinn frá þeim streymdi upp, einnig var hitað með kertum og olíulömpum sem gáfu líka ljósið. Ekki var mikið um jólaskraut þegar amma var að alast upp en þegar hún var að verða fullorðin smíðuðu bræður hennar jólatré úr spýtum sem henni þótti ótrúlega fallegt. Fyrir þessi jól var ég mest að pæla í hvort ég ætti að hafa áfram gamla gervijólatréð eða kaupa mér nýtt lifandi tré eða hvort ég ætti kannski að endurnýja jólaskrautið.
Á aðfangadag hjá ömmu fóru krakkarnir út að leika sér og móðir þeirra þreif baðstofuna, síðan voru allir þvegnir upp úr vaskafati. Ég ætla að vera þakklát fyrir að geta valið um hvort ég fari í baðkarið, sturtuna eða heita pottinn. Á aðfangadag fengu amma og systkini hennar stundum skó úr lambskinni sem voru bryddaðir með lérefti, nefndir sauðskinnsskór, saumuð var ný svunta fyrir stelpurnar og allir fengu kerti. Og ég sem átti erfitt með að velja í hvaða kjól ég ætti að fara. Í barnæsku ömmu voru ekki eiginlegar jólagjafir, en allir voru samt glaðir og ánægðir. Þau voru þakklát fyrir alla þá litlu tilbreytingu sem þau fengu. Ef kind var slátrað fyrir jólin var súpukjöt í matinn en ef ekki var slátrað var saltkjöt í jólamatinn á aðfangadagskvöld. Ég ætla að vera þakklát fyrir að hafa getað verið með þríréttaða máltíð á aðfangadagskvöld og ekki þurft að hafa áhyggjur af sláturtíð. Eftir matinn á aðfangadagskvöld var lesinn húslestur á bænum hennar ömmu, heima hjá mér vorum við fram að miðnætti að opna allar jólagjafirnar.
Ég er þakklát fyrir jólin mín.