Undanfarin tvö ár hef ég rekið sérhæft heimsóknarteymi frá Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg. Sérfræðingur í öldrunar-og/eða lyflækningum ásamt hjúkrunarfræðingi fer í vitjun til eldra fólks sem er nýútskrifað, hefur leitað á bráðamóttöku eða hringt á sjúkrabíl. Ástæður heimsóknanna eru margvíslegar en algengar ástæður eru versnanir á langvinnum sjúkdómum svo sem hjartabilun, lungnaþembu og heilabilun.
Þessi vinna er gríðarlega gefandi og skemmtileg og hægt er að veita mjög mikla þjónustu heima við. Í raun og veru er hluti af starfsemi spítalans flutt í heimahús og þess vegna má kalla teymið heimaspítala. Það eru til margs konar slík teymi út um allan heim, oft kallast þau á ensku „Hospital at home“. Ein af ástæðunum fyrir að vinna á þennan hátt er að margir hrumir aldraðir missa færni við innlögn á spítala, heilabilun versnar og það er mikil hætta á ruglástandi. Þess vegna er það kostur í vissum tilvikum að veita þjónustuna heima við.
Samskiptin við sjúklinga eru öðruvísi og betri þegar fólk er öruggt í sínu umhverfi. Oft er hægt að komast hraðar að aðalvandamálinu með því að sjá umhverfið heima. Einnig er hægt að greina alvarlega sjúkdóma og fyrirbyggja fylgikvilla meðferða og tryggja rétta lyfjatöku. Hægt er að draga mikið úr þörf á endurinnlögn eða komum á bráðamóttökur.
Við góða umönnun og eftirfylgni í heimahúsi getur fólk náð undraverðum bata við veikindum sínum þrátt fyrir háan aldur
Ég hef ótalmörg dæmi um gefandi vinnu á heimaspítalanum. Einn af uppáhaldssjúklingunum mínum er gamall maraþonhlaupari sem er kominn vel yfir nírætt. Við fylgdum honum eftir út af lungnabólgu sem hann fékk en við heimkomuna var hann afar horaður en það voru 30 kassar af eggjum í eldhúsinu. Hann sagði okkur að hann gæti ekki kyngt fastri fæðu. Hann vissi að hann þyrfti prótein og fitu og þess vegna borðaði hann fjölda eggja á dag.
Hann er með alvarlegan taugahrörnunarsjúkdóm og hafði gleymst í eftirliti í a.m.k. 7 ár. Við á heimaspítalanum vísuðum honum á göngudeild taugalækninga og í millitíðinni framkvæmdum við þær sérhæfðu rannsóknir sem þurfti (magaspeglun, kyngingarmynd og segulómun af heilastofninum). Hann fékk svo í samvinnu við taugalækna og meltingarlækna slöngu í gegnum kviðvegginn beint inn í maga til að fá næringu (magaraufun um kviðvegg með speglun, eða á ensku percutaneous endoscopic gastrostomy: PEG). Þar með var næringarástand hans tryggt. Við enn eina heimsóknina vegna lungnabólgu var gleðilegt að sjá að hann var búinn að þyngjast um nokkur kíló. Eftir tilvísun á göngudeild lungnalækninga er hann nú kominn á fyrirbyggjandi sýklalyfjameðferð út af sérstöku vandamáli í lungunum sem hann er með.
Hann er nú svo hraustur þrátt fyrir marga undirliggjandi sjúkdóma, að hann þarf ekki lengur á heimaspítalanum að halda.