Í dag er bóndadagurinn og óskar Aldur er bara tala öllum karlkynslesendum innilega til hamingju með daginn. Bóndadagurinn markar upphaf þorra ár hvert. Þorrinn hefst alltaf á föstudegi í 13.viku vetrar, nú 19. til 25.janúar en fyrir 1700 var það 9.-15. janúar.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að bóndinn ætti að fara fyrstur á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir að fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkomin í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta er „að fagna þorra“.
Við erum nú til efs um að það séu margir sem framkvæma þennan gjörning í dag á bóndadaginn, frekar að sú hefð sé við lýði í dag að maki eða aðrir nánir færi bónda sínum blóm eða dekri við hann með góðum mat. Nú ef enginn er til staðar í nærumhverfinu til að sjá um dekrið hvetjum við bændur til að dekra við sig sjálfir í mat og drykk.