Á heimasíðu Reykjavíkurborgar (www.reykjavik.is) segir að mikilvægt skref verði stigið í átt að enn frekari innleiðingu á velferðartækni í heimahjúkrun í Reykjavík, með nýjum samningi sem velferðsvið Reykjavíkurborgar hefur undirritað við Icepharma um leigu á rafrænum sjálfvirkum lyfjaskömmturum. Stefnt er að því að fyrstu tækin verði afhent einstaklingum í lok október til prófunar.
Í fréttinni segir að velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi á undanförnum misserum lagt mikla áherslu á innleiðingu á velferðartækni í heimahjúkrun og heimaþjónustu, en sviðið beri ábyrgð á slíkri þjónustu samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.
Sjálfvirkir lyfjaskammtarar eru byltingarkennd velferðartækni sem nýtist í fjarþjónustu. Tilkoma þeirra styður enn frekar við sjálfstæða búsetu fólks í heimahúsum, bætir gæði heimaþjónustu, eykur skilvirkni og tryggir einstaklingum örugga lyfjagjöf á réttum tíma.
Sjálfvirki lyfjaskammtarinn hentar einstaklingum sem búa heima en þurfa daglega eða oftar aðstoð og eftirfylgni við lyfjainntöku. Starfsfólk heimaþjónustu getur sent persónuleg skilboð í lyfjaskammtarann, þar sem til dæmis er hægt að minna viðkomandi á að hann þurfi að nærast eða drekka á ákveðnum tímum eða að hann eigi von á heimavitjun. Einnig er hægt spyrja um líðan í gegnum hann.
Í lyfjaskammtarann eru settar lyfjarúllur. Hann les þær upplýsingar sem fram koma á hverjum lyfjapoka og skammtar réttum lyfjum á réttum tíma. Ef einstaklingur tekur ekki lyfin fær heimaþjónustan skilaboð í miðlægt kerfi. Þetta eftirlit veitir einstaklingum mikið öryggi, til dæmis þeim sem búa einir eða í mikilli fjarlægð frá aðstandendum.
Lyfjaskammtarinn sem verður notaður í Reykjavík er frá finnska fyrirtækinu Evondos sem veitir um 200 heilbrigðisumdæmum á Norðurlöndum þjónustu. Fyrirtækið er leiðandi á þessu sviði en það er meðal annars á lista Financial Times yfir fyrirtæki sem vaxa hvað hraðast í Evrópu (https://reykjavik.is/frettir/sjalfvirkir-lyfjaskammtarar-teknir-i-notkun-i-heimahusum)