Verkefni á sviði velferðartækni þar sem markmiðið er að auka þekkingu eldri borgara á spjaldtölvum

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Í frétt á vef Vestmannaeyjabæjar segir að fara eigi í verkefni sem felur í sér að kenna eldri borgurum í Vestmannaeyjum á spjaldtölvur.

Verkefnið hefur það markmið að nýta tæknina til að efla sjálfstæði eldriborgara. Tekið verður tillit til óska fólks og hvað skiptir það máli. Meðal annars er möguleiki á að kenna fólki að nýta sér heilsuveru.is til að endurnýja lyf, panta sér tíma og vera í samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk. Einnig að kenna fólki á samskiptaforrit eins og til dæmis Skype.

Það getur verið erfitt að finna tíma í nútímasamfélagi, en myndsamtöl eru hentug til að auka samskipti við ættingja og vini. Samfélagsmiðlar eru einnig góðir til að fylgjast með fjölskyldu og vinum og til að vera í samskiptum við aðra. Auk þess getur fólk lært á heimabanka o.fl. Verkefnið mun hefjast á næstu vikum og er ætlað sem undirbúningur til að fylgja þeirri framþróun sem á sér stað í tæknilausnum í þjónustu við eldriborgara segir á vef Vestmannaeyjabæjar.

Kiwanisklúbburinn Helgafell með þá Tómas Sveinsson og Harald Bergvinsson í forsvari gáfu á dögunum öldrunarþjónustu Vestmannaeyjabæjar þrjár spjaldtölvur til að nota í verkefnið. Það er hverju byggðarlagi mikilvægt að hafa sterka bakhjarla í samfélagslegum verkefnum sem þessum. Kiwanisklúbburinn er einn af þeim öflugu bakhjörlum.

Það voru þær Thelma Rós Tómasdóttir verkefnastjóri öldrunarþjónustu og Kolbrún Anna Rúnarsdóttir deildarstjóri stuðningsþjónustu sem munu halda utan um verkefnið og veittu spjaldtölvunum móttöku.

Tengdar greinar