Í Víetnam þar sem greinarhöfundur fór nýlega er hefð fyrir því að fjölskyldumeðlimir sjái um eldra fólkið. Þar er það talið siðferðilega mikilvægt að börn og barnabörn hugsi um foreldra sína og afa og ömmur þegar þau eldast. Sérstök krafa er á að synir hugsi um foreldra sína. Þetta er hluti af sterkum menningarhefðum tengdum virðingu fyrir fjölskyldutengslum og eldri kynslóðum.

Öldrunarheimili og opinber þjónusta
Það eru öldrunarheimili í Víetnam, en þau eru ekki eins algeng og í mörgum vestrænum löndum.
Öldrunarheimilum og dagvistunarúrræðum fyrir aldraða hefur fjölgað á síðari árum, sérstaklega í stærri borgum eins og Ho Chi Minh City og Hanoi. Þetta stafar m.a. af breytingum á samfélagsgerð, þar sem ungt fólk flytur frá heimabyggð til að vinna annars staðar og fjölskyldur eiga erfiðara með að veita umönnun heima fyrir.
Sum öldrunarheimili í Víetnam eru rekin af ríkinu, önnur af trúarlegum samtökum eða þá af einkaaðilum. Gæði þjónustunnar getur verið mjög misjöfn bæði eftir staðsetningu og fjármögnun heimilanna.
Þörfin fyrir opinbera þjónustu er þó að aukast og ljóst að samfélagið í Víetnam þarf að bregðast við því fjölskylduhefðin er smátt og smátt á undanhaldi.
Lífslíkur víetnama er 73,3 ár
Víetnamar hafa tiltölulega háar lífslíkur samanborið við önnur lönd með sömu lífskjör en búa við fleiri sjúkdóma á efri árum. Meðalaldur fólks í Víetnam hefur hækkað á síðustu árum m.a vegna framfara í heilbrigðiskerfinu og voru meðaltals lífslíkur víetnamska íbúa um 73,3 ár árið 2023. Karlmanna 71,1 ár en kvenna 76,5 ár (statista.com).

Lífstíllinn virkar heilsusamlegur
Aftur á móti myndi greinarhöfundur halda að Víetnamar ættu að halda sér hraustum lengur þó rannsóknir hafi ekki endilega sýnt fram á það.
Þættir í þeirra menningu eins og hollt mataræði unnið frá grunni, mikið af ávöxtum og grænmeti er ríkara en hjá vestrænum þjóðum. Offita virðist vart þekkjast og algengur matur á borðum er núðlusúpa, fiskur, ávextir, grænmeti og hrísgrjón en hrísgrjónarækt er ein af aðal tekjulindum þjóðarinnar. Aftur á móti á heilbrigðiskerfið ennþá langt í land með að ná gæðum vestrænnar heilbrigðisþjónustu. Framfarir eru þó hraðar sem eins og áður sagði skilar sér í hækkandi lífaldri.

Löng hefð er einnig fyrir því að fólk sitji á hækjum sér við ýmis störf eða lágum kollum í stað stóla eins og við þekkjum þá og liðleiki því meiri.

Grunngildin koma úr trúnni
Flestir víetnamar eru búddhatrúar oft í bland við forföðurdýrkun og taóisma sem endurspeglar grunngildin í umönnun eldra fólks, virðingu fyrir eldra fólki og siðferðislega skyldu. Forföðurdýrkun er rík hefð í Víetnam og margir heiðra t.d látna ættingja sína með fórnum og helgihaldi. Taóismi er svo kínverskt hugmyndakerfi sem hefur haft mikil áhrif á siðferði, heimspeki og helgisiði í Víetnam.
