Að æfa nýtt og krefjandi verkefni eða iðju er gott til að byggja upp og viðhalda vitrænni færni og getu.
Heilinn þinn hefur getu til að taka inn nýja þekkingu og þroskast áfram þó þú eldist en til þess að svo verði þarftu að þjálfa hann reglulega
Vitræn færni hefur tilhneigingu til að dvína með aldrinum og meiri orku þarf til að viðhalda hugsun og góðu minni svo þú þarft að vinna í að viðhalda þér. Að tileinka sér nýja færni sem krefst þess að þú þarft að hugsa og læra og krefst áframhaldandi æfingar getur verið ein besta leiðin til að halda heilanum heilbrigðum.
Margar rannsóknir hafa leitt í ljós að skapandi þættir eins og að mála listaverk og aðrar listgreinar s.s að læra á hljóðfæri, að tjá sig í rituðu máli og skrifa og læra tungumál geta einnig bætt vitræna virkni.
Líkamleg og andleg virkni
Rannsóknir hafa sýnt að regluleg líkamsrækt er góð leið til að efla vitræna færni eins og minni, lausn vandamála, einbeitingu og athyglisgáfu. Hins vegar er ekki ljóst hvort líkamlegi þátturinn einn og sér eflir heilann þinn eða hvort samsetning annarra þátta – eins og andleg áskorun samhliða, hversu oft þú æfir og löngunin til að bæta sig stuðlar að betri heilavirkni.
Tökum sund sem dæmi. Það hefur augljósan ávinning fyrir hjarta- og æðakerfi og vöðvauppbyggingu, en felur einnig í sér stöðuga hugsun, úrvinnslu og nám. Þú verður að hafa í huga öndunartaktinn þinn og hvernig á að framkvæma högg og spörk á réttan hátt. Þú getur líka gert tíma og lengdarmælingar með tilliti til þols og hraða, sem hvetur þig áfram til að verða betri sundmaður.
Nokkrar leiðir til að efla heilastarfsemi
Veldu eina nýja virkni. Eyddu tíma þínum og athygli að aðeins einum virkniþátt til viðbótar og æfðu. T.d skák, golf, sudoku eða það sem hentar þínu áhugasviði
Skráðu þig á námskeið. Að mæta í tíma eða á námskeið er góð leið til að efla sig í nýrri færni. Þetta gæti t.d verið myndlistarnámskeið, tónlistarnámskeið, örnefnanámskeið, jóganámskeið eða hvað sem er.
Skipuleggðu æfingatíma. Miðaðu við að æfa nýja færni reglulega og á ákveðnum tímum eða dögum. Samviskusemi er hér lykilorð
Að þjálfa nýja virkni
Sama hvaða nýja þátt þú velur að þjálfa er best að fylgja þremur leiðbeiningum til að hámarka heilaþjálfun.
Krefjandi. Þú verður alltaf að skora á heilann til að hann geti vaxið. Þess vegna er svo gagnlegt að velja nýja virkni. Það vekur heilann upp til að læra eitthvað nýtt og býður upp á tækifæri til að bæta sig.
Ekki til í nýja viðleitni? Hækkaðu mörkin fyrir núverandi virkni. Til dæmis, ef þú ert kylfingur skaltu skuldbinda þig til að auka getu þína og miða að því að lækka forgjöf þína eða ná ákveðnu skori. Þó þú hafir ekki áskorunina um að læra eitthvað nýtt, spreyttu þig þá á áskoruninni að auka færni og þekkingu sem þegar er til staðar
Flækjustig. Flókin athöfn er ekki aðeins spennandi áskorun heldur neyðir heilann til að vinna að ákveðnum hugsunarferlum eins og lausn vandamála og skapandi hugsun.
Æfðu þig. Æfingin festir nýja virkni í sessi og það á við um eflingu á heilastarfsemi líka. Þú getur ekki bætt minni ef þú vinnur ekki í því. Því meiri tíma sem þú eyðir í að virkja heilann, því meira gagnast það.
Gangi þér vel
Byggt á grein frá Harvard Health Publishing eftir Howard E. LeWine, MD