Af hverju má ég ekki bara vera í friði ? Ég er pirraður og finnst ekkert ganga upp. Svar félagsráðgjafa við fyrirspurn

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Sæl !

Mig langar til að spyrja þig hvort ekki sé hægt að fá að vera í friði fyrir fjölskyldunni. Ég er 75 ára gamall ekkill og langar bara að vera einn. Börnin mín tvö eru með áhyggjur af mér og vilja alltaf vera að fá mig til sín eða eru að koma í heimsókn með krakkana sína. Síðustu mánuði hefur mig langað meira og meira til að loka mig af og vera einn. Mér finnst allt eitthvað svo tilgangslaust og nenni ekki að fara út, verð þá bara alltaf fljótt pirraður og finnst ekkert ganga upp sem ég geri eða segi. Ég var í Kiwanis en finnst bara komið nóg af því í lífinu. Ég er bara þreyttur og vill bara horfa á sjónvarpið í friði og ró og vera einn.

Vonandi getur þú svarað mér einhverju um hvort maður megi ekki bara vera í friði ef maður vill það.

Kveðja

Sæll og blessaður !

Takk fyrir að hafa samband við Aldur er bara tala. Í þessari stuttu fyrirspurn sem þú sendir mér get ég heyrt að þér líður ekki vel. Ég held að svarið við spurningunni sé hvorki hvort þú megir vera í friði eða megir það ekki. Mögulega gæti verið erfitt fyrir þig að heyra það núna en á þessum tímapunkti er mikilvægt að finna leiðir til að þér geti liðið betur og það er þess virði að láta á þær reyna.

Ég heyri að þú átt börn sem er annt um þig, leyfðu þeim að umvefja þig. Ég heyri að þú átt barnabörn, leyfðu þér að njóta samvista við þau. Ég heyri að þú hefur átt félaga í Kiwanis, haltu áfram að njóta þess góða félagsskapar. Skref fyrir skref skaltu reyna að koma þér af stað aftur í lífið því það er mögulega það besta sem þú getur gert fyrir sjálfan þig.

En það er líka mjög mikilvægt að þú hafir samband við heimilislækninn þinn sem fyrst til að ræða málin, það að vera pirraður, framtakslaus, finna fyrir vonleysi og önnur einkenni sem þú nefnir getur bent til að um þunglyndi sé að ræða. Prestar í kirkjum landsins eru einnig góðir hlustendur. Þú minnist á að vera ekkill, mögulega ertu í sorgarferli sem þarfnast úrvinnslu. Það er líka hægt að hringja símtal undir nafnleynd í hjálparsíma Rauða krossins 1717 á hvaða tíma sólarhringsins sem er eða fara í netspjall í gegnum heimasíðuna www.raudikrossinn.is, stundum er gott að ræða við óháðan aðila um hvernig manni líður.

Það er ekki góð staða að vilja loka sig af og upplifa vonleysi EN það eru til lausnir. Leyfðu öðrum að hjálpa þér að finna leiðir að betri líðan.

Þér er einnig velkomið að hafa aftur samband við Aldur er bara tala

Gangi þér vel

Tengdar greinar