Get ég fengið umönnunarbætur fyrir að annast veikan maka minn ? Svar félagsráðgjafa við fyrirspurn

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Sæl !

Eiginkona mín er með langvinnan sjúkdóm sem gerir það að verkum að ég er mjög bundinn yfir umönnun hennar. Hún vill helst bara að ég annist hana og ég var að velta fyrir mér hvort hægt væri að fá greiddar bætur fyrir umönnunina ? Hún er orðin eldri borgari en ég á tvö ár í það en þurfti að hætta að vinna vegna þessa með tilheyrandi tekjutapi.

Kveðja

Sæll og blessaður og takk fyrir að hafa samband við Aldur er bara tala.

Já þú getur sótt um það sem heitir „Maka og umönnunarbætur“ hjá Tryggingarstofnun en þær eru einmitt ætlaðar þeim sem annast maka sinn eða annan aðila á sama lögheimili. Þú þarft að fá vottorð hjá læknir um umönnunarþörfina, staðfestingu á starfslokum og launaseðla síðustu þrjá mánuði eða staðfestingu á tekjuleysi frá RSK ásamt síðsta skattframtali. Síðan þarftu að fylla út umsókn hér eða í næsta umboði Tryggingarstofnunar.

Öðrum til upplýsinga að þá er ekki hægt að sækja um þessar greiðslur ef umönnunaraðili er líka lífeyrisþegi en í þínu tilfelli skaltu endilega láta á það reyna.

Hafa ber í huga að ef heildartekjur umsækjanda fara yfir viðmiðunarmörk fellur réttur til maka- og umönnunarbóta niður. Viðmiðunarmörkin eru sú fjárhæð þegar réttindi til ellilífeyris hjá TR falla niður. 

Gangi þér vel og mundu eftir að passa upp á sjálfan þig líka og þiggja þá aðstoð sem hægt er að fá í þessu lífsins verkefni hvort sem er frá fjölskyldunni eða öðrum

Tengdar greinar