Geta allir fengið heimsendan mat sem eru orðnir eldri borgarar ? Fyrirspurn til félagsráðgjafa

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Sæl !

Mig langar að vita þar sem ég er nú formlega orðin eldri borgari hvort ég eigi þá rétt á því að fá heimsendan mat frá sveitarfélaginu en ég veit um nokkra sem eru að fá mat sendan ?

Kveðja

Sæl og blessuð !

Takk fyrir að senda fyrirspurn á Aldur er bara tala. Heimsendur matur er í boði hjá flestum sveitarfélögum, oftast niðurgreiddur og því á hagstæðu verði. Heimsendur matur er hins vegar háður þjónustumati sem starfsmaður félagsþjónustu á svæðinu annast. Það er ekki sjálfkrafa réttur þó umsækjandi sé orðinn 67 ára.

Þjónusta við eldri borgara á heimsendum mat byggir á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 sem miða að því að efla einstaklinga til sjálfshjálpar en styrkja jafnframt aldraða til að búa sem lengst í heimahúsum.

Svo oft er miðað við að fólk er hvatt til að halda áfram að gera það sem það getur sjálft til að viðhalda færni sem lengst. En síðan er veitt aðstoð við það sem fólk getur ekki gert sjálft. Það geta líka verið félagslegar aðstæður sem hafa áhrif á afgreiðslu umsóknar um heimsendan mat.

Ef aðstæður þínar eru þess eðlis að þú telur að þú eigir rétt á heimsendingu matar og þarft á því að halda hvet ég þig til að setja þig í samband við næstu félagsþjónustu og fá nánari upplýsingar.

Tengdar greinar