Hvar get ég sótt um aðstoð við að þrífa heima hjá mér ? – Svar félagsráðgjafa við fyrirspurn

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Sæl !

Nú er ég orðin 67 ára gömul og langar að fá aðstoð við að þrífa heima hjá mér. Ekki það að ég geti ekki gert það sjálf, ég hef bara heyrt að ég eigi rétt á þessari þjónustu vegna aldurs. Hvernig ber ég mig að og veistu hvað það kostar að fá svoleiðis þjónustu ?

Kveðja

Sæl og blessuð !

Takk fyrir að hafa samband við www.aldurerbaratala.is . Til að byrja með langar mig að segja þér hvað þú ert heppin að geta ennþá þrifið heima hjá þér sjálf, það eru ekki allir svo heppnir því margir eiga við heilsufarsvandamál að stríða sem gera þeim erfitt fyrir. Hjá sveitarfélögum er hægt að sækja um aðstoð inn á heimili, það hét áður félagsleg heimaþjónusta en er í dag kallað stuðningsþjónusta. Oft er sú þjónusta staðsett í félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags, en þar sem ég veit ekki hvar þú býrð get ég ekki gefið þér nákvæmara svar en það. Aftur á móti er sú þjónusta veitt út frá þjónustumati og hefur ekki endilega með aldur að gera. Samkvæmt þeim reglum um stuðningsþjónustu sem ég hef séð er markmiðið alltaf að efla einstaklinga til sjálfsbjargar og þá er hverjum hollt að halda áfram að gera það sem hann getur gert sjálfur og fá aðstoð við það sem viðkomandi getur ekki gert. Varðandi kostnað að þá er oftast tekið gjald fyrir þrifin, í mörgum tilfellum tekjutengt.

Guðrún Jóhanna iðjuþjálfi hefur svo í nýlegri grein hér á síðunni bent á gott hjálpartæki https://www.aldurerbaratala.is/lifogheilsa/velferdartaekni-til-ad-einfalda-hversdaginn/ sem hægt er að nota til að létta sér verkin, þegar upp er staðið geta kaup á til dæmis ryksugu- og skúringarvél borgað sig. Einnig eru víða fyrirtæki sem bjóða upp á aðstoð við þrif í heimahúsum ef þú vilt fara þá leið. Ég mæli hins vegar alltaf með því að halda áfram að gera það sem maður getur gert sjálfur til að halda sér í virkni og þjálfun.

Vonandi hefur þetta svarað spurningum þínum

Bestu kveðjur

Sólrún

Tengdar greinar