Lesandi síðunnar sendi inn eftirfarandi fyrirspurn sem við fengum Anítu Óðinsdóttur lögmann hjá A. Lögmönnum (www.alogmenn.is) til að svara fyrir okkur
Sæl !
Þar sem ég er að nálgast eftirlaunaaldurinn er ég farin að velta ýmsu fyrir mér sem tengist því að ég verð víst ekki eilíf. Ég bý ein og á engin börn svo mig langar að vita hver erfir mig þegar ég dey ? Kveðja X
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina !
Til nánari útskýringar þá eru lögerfingjar maki og afkomendur þ.e. börn og barnabörn sem erfa hinn látna. Eigi arfleifandi hvorki maka né afkomendur rennur arfur til foreldra. Ef annað foreldrið er ekki á lífi fer hlutur þess til barna (systkina þess látna) eða annarra niðja, en ef það á enga afkomendur fer arfurinn allur til hins foreldrisins. Ef hvorugt foreldri hins látna er á lífi taka afkomendur hvors foreldris þann arf sem því hefði borið. Ef annað foreldrið á enga afkomendur, fer allur arfurinn til afkomenda hins. Foreldrar og afkomendur þeirra eru ekki skylduerfingjar og erfa hinn látna eingöngu ef hann á ekki maka eða afkomendur á lífi og hefur ekki ráðstafað arfinum á annan veg í erfðaskrá. Ef enginn af þeim aðilum hér að ofan er til að dreifa þá taka föðurforeldrar og móðurforeldrar sinn helming arfs hvor. Ef föður- eða móðurforeldrar eru látnir taka afkomendur þeirra arf, það er að segja systkini foreldra hins látna eða börn þeirra og barnabörn. Eigi þeir enga afkomendur rennur arfurinn allur til þeirrar ömmu og afa hins látna sem enn eru á lífi eða afkomenda þeirra. Afi og amma þess látna og afkomendur þeirra eru ekki skylduerfingjar og erfa hinn látna eingöngu ef hann hefur ekki ráðstafað arfinum á annan veg í erfðaskrá. Ef enginn er til að taka arf samkvæmt lögerfum og engin erfðaskrá hefur verið gerð rennur arfurinn í ríkissjóð.
Strangar reglur gilda um form erfðaskráa og um hvernig á að standa að vottun þeirra. Erfðaskrá kann að vera metin ógild ef ekki er eftir þeim reglum farið. Því myndi ég alltaf leita til lögmanns við gerð erfðaskrár og ráðgjöf í samræmi við það.
Bestu kveðjur og gangi þér vel