Sæl !
Mig langar að spyrja um hversu mikið vatn maður á að drekka á hverjum degi og hvort það fari eftir aldri eða einhverjum öðrum þáttum ? Mér finnst svo misvísandi skilaboð í gangi um þetta
Með bestu kveðju X
Sæl og takk fyrir að senda fyrirspurn á Aldur er bara tala !
Tilfinning fyrir þorsta getur minnkað með aldrinum og þess vegna er gott að vera meðvitaður um vökvainntöku. Margir veigra sér við því að drekka sérstaklega vatn vegna tíðra þvagláta um nætur.
Ágætt er að miða við um 1,5-2L af vökva á dag, en erfitt er að segja nákvæmlega til um hvað hver og einn þarf. Það getur farið eftir stærð einstaklings, t.d. getur verið mismikil vökvaþörf hjá konu sem er 150 cm á hæð og karlmanni sem er 200 cm á hæð. Það getur einnig farið eftir hreyfingu, umhverfishitastigi, veikindum o.fl.
Vert er að taka það fram að allir drykkir teljast með sem vökvi, það er vatn, kaffi, te, ávaxtasafi og mjólk. En betra er að hafa vatnið í meirihluta.
Ef einstaklingur stundar mikla hreyfingu, er í miklum hita eða við veikindi þarf að huga sérstaklega að vökvainntöku og gæti þurft meira.
Gott er að dreifa vökvainntektinni yfir daginn og byrja að fá sér vatn á morgnanna og halda áfram jafnt og þétt yfir daginn til þess að koma í veg fyrir að meirihluti vökvans sé drukkinn á kvöldin sem getur svo haft áhrif á tíð þvaglát um nætur.
Einnig getur verið gott að fylgjast með litnum á þvaginu og ef það er mjög dökkt (brúnleitt eða dökkgult) þá þarf að bæta inn meiri vökva.
Með bestu kveðju
Thelma Rut Grímsdóttir næringarfræðingur