Sæl!
Maðurinn minn sem er 79 ára endurtekur sífellt spurningar og týnir hlutum. Hann hefur alltaf verið handlaginn en núna klárar hann aldrei að laga hluti. Ég er að velta fyrir mér hvort hann sé með Alzheimer sjúkdóminn og hvað ég eigi að gera?
Kveðja
Sæl og takk fyrir spurninguna !
Það er ekki óvenjulegt að minni versni lítillega með hækkandi aldri en það að hann eigi í erfiðleikum með hluti sem hann hefur áður getað gert og týni hlutum (ég geri ráð fyrir að hann hafi ekki alltaf verið utan við sig og týnt hlutum) gæti verið vísbending fyrir minnissjúkdóm. Það þarf þó að skoða hann og leita að öðrum sjúkdómum sem geta haft áhrif á vitræna getu svo sem skjaldkirtilstruflunum, truflunum á efnaskiptum kalks sem og þunglyndi. Ég ráðlegg að hann fari til heimilislæknis. Heimilislæknir tekur sjúkrasögu og skoðar hann, tekur blóðprufur og metur hvort aðrir sjúkdómar séu til staðar og veitir viðeigandi meðferð. Grunnuppvinnsla minnissjúkdóma felur í sér ofannefnt og í kjölfarið minnispróf sem kallast MMSE (Mini-mental state Examination), taugaskoðun og tölvusneiðmynd af höfði. Ef að heimilislæknir lendir í vandræðum með greiningu eða meðferð vísar hann sjúklingi áfram til öldrunarlæknis eða á minnismóttöku Landakotsspítala.
Bestu kveðjur
Guðný