87
Þegar sorgin bankar á dyrnar hættir þeim sem standa í kring til að verða óöruggir og vita ekkert hvernig þeir geta stutt þann sem syrgir og bregðast jafnvel við með því að forðast viðkomandi.
Hér eru nokkur ráð um hvernig við getum borið okkur að og stutt þá sem syrgja:
- Mundu að syrgjandinn þarf á stuðningi þínum að halda. Nærvera þín og hlýja skiptir meira máli en hvað þú segir.
- Hafðu samband til að sýna að þér er ekki sama. Farðu í heimsókn, hringdu eða sendu persónuleg skilaboð. Gefðu af tíma þínum. Syrgjandi á oftast erfitt með að hafa frumkvæði og hefur ekki kraft til að biðja um hjálp. Hafðu líka samband á frídögum og hátíðum. Þá er sársaukinn oft mestur og einmanaleikinn töluverður.
- Gerðu þér grein fyrir mikilvægi þess að fjölskyldan og vinahópurinn standi saman, ekki bara rétt eftir andlátið.
- Vertu reiðubúin(n) að bjóða fram aðstoð þína við hagnýta hluti: Að fara útí búð, búa til mat, þvo upp, svara í símann og þrífa. Syrgjendum getur verið um megn að framkvæma einföldustu heimilisverk.
- Sýndu hluttekningu, einlægni og heiðarleika. Vertu óhrædd(ur) við að sýna eign vanmátt.
- Stattu við gefin loforð. Það er mjög mikilvægt.
- Faðmlag og tillitsöm snerting veitir styrk og segir oft meira en mörg orð. Hafðu þó í huga að sumum þykir líkamleg snerting óþægileg. Virtu það.
- Hlustaðu, hlustaðu, hlustaðu. Það er syrgjendum afar mikilvægt að eiga traustan áheyranda.
- Virk hlustun felur í sér að sýna einlægan áhuga. Ekki gefa ráð eða taka orðið af syrgjandanum. Ekki breyta um umræðuefni.
- Virtu tilfinningar syrgjandans og líðan. Mikilvægt er að staðfesta að margskonar tilfinningar séu eðlileg viðbröð í sorg.
- Forðastu að dæma viðbrögð syrgjenda. Sorgin birtist með ólíkum hætti og einstaklingsbundnum.
- Mundu að sorg tekur tíma og þú þarft að vera til staðar.
- Syrgjendur þurfa oft að fá að tala um hinn látna og aðstæður andlátsins, líka löngu eftir andlátið.
- Sýndu áhuga – vertu vinur í raun.
(Ráð fengin úr bæklingnum Sorg og sorgarviðbrögð sem gefinn var út af sorgarmiðstöðinni www.sorgarmiðstod.is)