Félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða

eftir Sólrún Erla Gunnarsdóttir

Nýtt úrræði sem er ætlað að styrkja framfærslu 67 ára og eldri sem búsettir eru hér á landi og eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum kom til framkvæmda þann 1.nóvember s.l.

Frumvarp um þennan viðbótarstuðning var unnið eftir tillögum úr skýrslu starfshóps um kjör aldraðra sem skipaður var af félags-og barnamálaráðherra. Var starfshópnum falið að fjalla um kjör eldri borgara í því skyni að fá betri yfirsýn yfir þær ólíku aðstæður sem eldri borgarar búa við og koma með tillögur um hvernig bæta megi kjör þeirra sem búa við lökustu kjörin.

Haft var eftir Ásmundi Einari Daðasyni, félags-og barnamálaráðherra á vef stjórnarráðsins í sumar að hann væri virkilega ánægður með að þetta frumvarp væri orðið að lögum og með því væri verið að stíga mikilvægt skref í því að bæta stöðu þess hóps eldri borgara sem býr við verstu kjörin og hefur lítil eða engin lífeyrisréttindi. Með þessum viðbótarstuðningi væri verið að koma viðkvæmustu hópum eldri borgara í skjól og tryggja þeim örugga framfærslu.

Með lögunum öðlast einstaklingar, sem búsettir eru hér á landi og hafa annað hvort alls engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum, rétt til félagslegs viðbótarstuðnings sem getur að hámarki numið 90% fulls ellilífeyris almannatrygginga. Breytingin tekur til einstaklinga sem hafa náð 67 ára aldri, hafa fasta búsetu og lögheimili á Íslandi og dvelja hér varanlega. Ef um erlendan ríkisborgara er að ræða skal hann hafa ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi

Einstaklingar sem eru 67 ára og eldri með engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum og með tekjur undir 231.110 kr á mánuði geta átt rétt á þessum viðbótarstuðningi við aldraða. Sótt er um á mínum síðum á www.tr.is eða í næsta umboði Tryggingastofnunar.

Tengdar greinar