Á heimasíðu stjórnarráðins er sagt frá því að hundraðasta rampinum hafi verið fagnað á Eyrarbakka í gær en markmiðið er að setja upp 1000 rampa á landinu öllu á næstu fjórum árum. Við þetta tækifæri undirrituðu Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Haraldur Þorleifsson hvatamaður verkefnisins samning um stuðning ríkisins við þetta frábæra og mikilvæga verkefni.
Verkefnið Römpum upp Ísland hefur þann mikilvæga tilgang að greiða aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, afþreyingu og þátttöku og stuðlar þannig að auknu jafnrétti allra. Römpunum er ætlað að veita hreyfihömluðum aukið aðgengi að verslun og þjónustu. Stofnaður var sjóður með aðkomu fyrirtækja og aðila sem stendur straum af kostnaði fyrir verslunar- og veitingahúsaeigendur. Rampar eru settir upp í góðu samstarfi eigenda bygginga og skipulagsyfirvalda í hverju sveitarfélagi.
Rampar hafa verið settir upp víða um land allt frá því að fyrsti rampurinn í þessu átaki var opnaður í Hveragerði í maí. Meðal sveitarfélaga sem hafa nú þegar fengið rampa eru Reykjanesbær, Borgarbyggð, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Akranes, Kirkjubæjarklaustur og Höfn í Hornafirði. Í fyrra voru 100 rampar settir upp í verkefninu Römpum upp Reykjavík.
Haraldur Þorleifsson stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno er hvatamaður verkefnisins. Styrktaraðilar verkefnisins Römpum upp Ísland á landsvísu eru Ueno, innviðaráðuneytið, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, BM Vallá, Davíð Helgason, Össur, InfoCapital, Brandenburg, Efla, Aton.JL, Deloitte, LEX, Gæðaendurskoðun ehf., ÖBÍ og Sjálfsbjörg. Sveitarfélög leggja færa ennfremur mikilvægt framlag á hverjum stað.
Fréttina alla má lesa HÉR