Þann 3.maí sl. var haldinn Landsfundur eldri borgara haldinn í Hafnarfirði. Á fundinum voru miklar umræður um hagsmunamál eldra fólks. Landsfundarfulltrúar skiptu sér í málefnahópa og ræddu einstök mál. Að því loknu bar hver hópur upp sínar tillögur sem allar voru samþykktar einróma af landsfundarfulltrúum alls staðar að af landinu.
Eftirfarandi er ályktun landsfundarins um Húsnæðismál
Staða eldra fólks í húsnæðismálum er og hefur verið óviðunandi. Ekki verður séð að ástandið lagist í náinni framtíð þrátt fyrir margítrekaðar kröfur til stjórnvalda um úrbætur.
Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga ber mjög mikið á loforðum framboða sem dynja á eldri borgurum um húsnæðismál. LEB leggur áherslu á að staðið verði við loforðin.
Í ljósi þessa telur Landsfundur LEB áríðandi að loforð framboða um húsnæðismál eldra fólks verði ítarlega skráð. Á Landsfundum LEB gefist kostur á að gera grein fyrir efndum á kjörtímabilinu með það fyrir augum að upplýsa eldri borgara um efndirnar fyrir næstu kosningar.
Skipulagsmál: Tryggt verði í skipulagsmálum sveitarfélaga að hluti byggingarsvæða verði ætlaður fyrir íbúðir fyrir eldra fólk og að ávallt verði nægt lóðaframboð.
Húsnæðismál: Stórkostlegur vandi blasir við á húsnæðismarkaði. Fyrirliggjandi er gríðarleg þörf á íbúðum fyrir eldra fólk og þörfin mun bara aukast. Fjölga þarf lífsgæðakjörnum sem millistigi milli heimilis og hjúkrunarheimilis með íbúðum sem svara kröfum um samveru, öryggi og eru til þess fallnar að sporna gegn einmanaleika. Huga þarf sérstaklega að staðsetningu með tilliti til tengsla við þjónustumiðstöðvar, heilsugæslu og hjúkrunarheimili.
Landsfundur LEB telur brýnt að stjórnvöld tryggi sveitarfélögum og óhagnaðardrifnum byggingarfélögum aðgang að ódýru lánsfé til uppbyggingar lífsgæðakjarna, leigu-, eigna- og búseturéttaríbúðum fyrir eldra fólk.
Krafist er fjölbreyttra búsetuúrræða sem ná til allra, félagsleg úrræði, leiguíbúðir og íbúðir til eigu allt á viðráðanlegu verði.