Þegar eitthvað virðist vera að hrjá ástarsambandið er það fyrsta sem mörgum dettur í hug að leita að vandamálinu og greina sambandið, greina hvað sé að makanum eða hvað sé að okkur sjálfum. Ýmsar sjálfshjálparbækur hjálpa okkur við að finna alls konar útskýringar á hlutunum, af hverju er þetta svona og hinsegin? Í lausnamiðaðri hugmyndafræði s.s í bókinni „Stop blaming, start loving“ eftir O’ Hanlon og Hudson er áhugavert og einfalt sjónarhorn á hvernig má byrja á að bæta sambandið.
Greining á vandanum
Greiningin á því sem er að getur verið alls konar en finnum við alltaf réttu lausnina með því að greina vandann? Oft er svokallaður vandi margslunginn og óvíst að við komumst nokkurn tímann að niðurstöðu um orsakir með því að reyna endalaust að finna skýringar. Góðar útskýringar breyta ekki endilega því sem er að. Lykillinn er því að horfa á: Hvað getum við gert til að láta hlutina ganga betur í stað þess að horfa á hvað er ekki að ganga. Breytum vandamálum í lausnir, það er svo miklu skemmtilegra
Ryðgaður dans?
Við gætum gefist upp á að reyna að laga hlutina og það sem er að því makinn vill ekki breytast. En eins og segir í vinsælu lagi og texta eftir Valdimar þá “Þarf tvo til að dansa og svo tvo til að stansa okkar ryðgaða dans”. En við þurfum sjálf að skoða hverju við getum breytt til að breyta a.m.k taktinum í sambandinu og dansinum. Svo áfram sé vitnað í texta Valdimars “ég þarf kannski að líta í minn eigin barm og sjá að ég er ekki alltaf með opinn faðm”.
Horfðu á nútíðina og framtíðina. Ekki á fortíðina.
Það er í tísku núna að lifa í núinu og kannski er það eitthvað sem ástandið undanfarna mánuði hefur kennt okkur, kannski aðeins of vel. Það er hægt að eyða endalausum tíma í að greina allt sem hefur ekki gengið upp í fortíðinni og hverjum er um að kenna. Við getum eytt tímanum í að velta okkur upp úr hlutum sem komið hafa upp og endað í særindum í sambandinu. Við vitum oftast hvað við viljum ekki, en við þurfum við ekki að komast að því hvað við viljum? Setjum áhersluna á það sem okkur langar í og biðjum um það ef við erum ekki að öðlast það. Segjum það upphátt hvernig við viljum hafa sambandið, ef við höfum ekki kjarkinn í það þá má skrifa það niður. Því ekki að senda makanum gamaldags handskrifað sendibréf.
Sögurnar okkar
Við getum gleymt okkur í því að segja sögur. Getum endalaust sagt sögur af því sem hefur farið úrskeiðis í sambandinu og hvernig makinn hegðar sér. Við notum þessar sögur til að útskýra sambandið sem við eigum í, ekki endilega upphátt en oft sem mest í hljóði fyrir okkur sjálfum. En hvað er rétt og hvað er rangt í sögunum? Það er þekkt að tveir einstaklingar upplifa yfirleitt ekki sama atburðinn á sama máta, upplifun af litbrigðum er ólík. Meðan sumir sjá allt svart sjá aðrir ljósari liti. Það er því oft þannig með sögur að það er ekkert eitt rétt eða rangt, þetta snýst upp mismunandi upplifanir af sama atburðinum.
Við rífumst stundum um sannleikann í því sem kemur upp. Sögurnar snúast þá stundum um að skammast í makanum “þú ert ástæðan fyrir því að sambandið gengur illa”. Stundum snúast þær um að gera lítið úr tilfinningum hins aðilans “þú ert að ímynda þér þetta“ eða “þú ert alltof viðkvæm/ur”. Sögurnar geta líka snúist um að útiloka möguleika á breytingum. Þá ertu búinn að ákveða að þinn sannleikur sé sá eini rétti og að mögulegar breytingar geti ekki átt sér stað. Ef það sem makinn trúir á að sé sinn sannleikur fær ekki hlustun, er þá einhver vilji til að leysa málin ?
Hættu að kenna öðrum um, byrjaðu að elska og breytingar munu eiga sér stað
En ef vilji er fyrir að laga sambandið er spurning hvar best sé að byrja ? Prófaðu að horfa fram á við, segja frá því hvað þú vilt, hvernig þér líður í dag og hvað þig langar. Horfðu á það sem er jákvætt í fari makans og láttu hann vita af því. Þú getur lært hvernig þú getur verið þinn eigin hjónabandsráðgjafi og farið að hugsa í lausnum í stað þess að festa þig í gömlum sögum og útskýringum á því sem miður hefur farið. Ekki gera ráð fyrir því að maki þinn lesi hugsanir og viti hvað þú vilt, ekki einu sinni þó þið séuð búin að vera saman í tugi ára.
Prófaðu að gera þessa æfingu í dag;
Skapaðu aðstæður fyrir ástina til að vaxa, ekki nöldra, ekki tuða. Í dag skaltu koma fram við makann eins og hann sé eina sanna ástin í lífi þínu sem hann vonandi er. Taktu ákvörðun um hvernig raddtón þú munt nota, hvernig þú snertir hann, hvað þú munt segja og láttu alla þína hegðun stjórnast af ást. Bara af ást. Hrósaðu makanum, færðu honum kaffibollann, horfðu í augu hans og láttu vita af þér.