Við hjónin Guðni Friðrik Gunnarsson og Petrína Sigurðardóttir (Peta) tókum okkur upp og fluttum frá Eyjum til Danmerkur um miðjan ágúst 2020.
En hvers vegna ? Ég hef oft fengið þessa spurningu bæði munnlega og skriflega.
Fyrir okkur hjónin var þetta “einfalt”, við eigum 6 börn; fjórar dætur og 2 drengir. Allar dæturnar eru búsettar í Danmörku og Svíþjóð. Barnabörnin sem voru þá 7 einnig öll búsett með foreldrum sínum erlendis. Við höfðum að stærstum hluta misst af barnabörnunum. Einungis 2-3 heimsóknir á ári.
Ég varð 67 ára 2020 og konan 65 ára, við skoðuðum lífeyrismálin í þaula og tókum síðan þá ákvörðun að flytja til Danmerkur og fara að njóta lífsins sem “heldri borgarar”. Auðvitað var það þó nokkuð snúið í COVID veseninu Allar eignir í eyjum voru seldar, íbúð, bíll og allt innbú.
Síðan var flutt til Espergærde á eyjunni fögru “Sjálandi”. Yndislegur bær ekki langt frá Helsingör og stutt að bregða sér til Gautaborgar, þar sem ein dætranna býr ásamt manni og 2 sonum.
100 m gangur er í verndarskóg með flottum gönguleiðum sem er mikið notaður og einungis 5 mínútna labb niður á ströndina.
Nálægðin við fjölskylduna
Við fengum glænýja íbúð á jarðhæð, við vorum fyrstu leigjendur, yndisleg íbúð og stórglæsilegt umhverfi. Yngsta dóttirin og fjölskylda býr í næsta húsi (en það fjölgaði um 1 barnabarn í júní s.l) og önnur í 10 mínútna fjarlægð frá okkur, sú þriðja í nágrannabæ.
Þetta var stórkostleg breyting fyrir okkur, stærsti hlutinn af okkar fólki í nálægð við okkur og sennilega bætist annar drengjanna við innan skamms tíma og fer í framhaldsnám í læknisfræði.
Þrjú barnabarnanna voru nokkuð mikið hjá okkur vegna lokana á COVID-tímanum hér en vegna COVID voru strangar reglur um umgengni og ferðalög t.d. með lestum en allt er þetta að breytast til hins betra þessa dagana. Það er dásamlegt að heyra orðin amma og afi
Félagslífið á danskri grundu
Við höfum gengið í samtök “Heldri borgara í Kaupmannahöfn” sem er hópur Íslendinga sem hittast vikulega í Jónshúsi eða fara í skoðunarferðir. Frábært fólk, sem margt hefur búið hér í áratugi. Einnig höfum við gerst félagar í “Ældre sagen”, samtökum eldra fólks í Danmörku, þar sem jafnan er mikið félagsstarf, en sem hefur verið í láginni vegna þessa „leiðinlega“ en stendur til bóta. Segi ykkur nánar af því síðar.
Ég hélt árgangsmót fyrir “53” módelið búsetta hér á Sjálandi og tókst mjög vel, allt samkvæmt reglum á þeim tíma. Við vorum 3 með undirrituðum. Planið er að hittast aftur fljótlega.
Við Peta vorum í fyrsta hópnum í Heilsueflingarverkefni Vestmannaeyjabæjar 65 + (Janusarverkefnið) og höfum haldið okkur við efnið, sérstaklega með nær daglegum göngum. Söknum reyndar félagsskaparins með frábæru fólki, en það er gaman að fylgast með (við fáum pósta og annað efni frá starfsmönnum Janusar.)
Þjónusta og verðlag
Annað, sem ég vil nefna er læknisþjónustan hér í Danmörku, hún er án kostnaðar í komugjöldum og því um líku. Vikunni eftir að við komum fengum við rannsóknargögn v /ristils og einnig boð um bólusetningu v/inflúensu (gert árlega) + bólusetningu vegna lungnabólgu, gert á 5 ára fresti
Verð á nauðsynjavörum er umtalsvert lægra hér en á Íslandi, húsaleiga svipuð en rafmagn og hiti nokkuð hærra. 10 mínútna gangur er í stóra verslunarmiðstöð hér í bænum og við höfum einnig pælt í vikulegum afsláttarbæklingum. 10 mínútur með lest til Helsingör eða 30 mínútur með lestinni niður í Kaupmannahöfn. Við höfum aðeins tvisvar sinnum komið niður á Strikið í rúmt ár enda höfum við ekkert að sækja þangað.
Bestu kveðjur héðan úr ríki Margrétar og Mettu.
Guðni Friðrik Gunnarsson oftast kenndur við Gilsbakka í Eyjum