Í lögum um málefni aldraðra segir að aldraður sé sá sem orðin/n er 67 ára. „Markmið þessara laga er að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu, sem þeir þurfa á að halda“.
Allir hljóta að eiga völ á heilbrigðis- og félagslegri þjónustu, á hvaða aldri sem þeir eru, ekki bara 67 ára og eldri. Þetta sérstaka lagaákvæði um þá sem eru 67 ára og eldri, er því eitthvað skrítið.
Það er spurning hvort sérstök lög þurfi fyrir fólk eldri en 67 ára, ekki frekar en sérstök lög um fólk sem er fertugt eða fimmtugt. Eru ekki annars allir jafnir gagnvart lögum?
Undarlegt ákvæði þessara laga um aldraða segir: „Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur.“ – Þetta ákvæði laganna er að mínu mati móðgun við það fólk sem orðið er 67 ára. – Það eiga auðvitað allir þjóðfélagsþegnar að njóta jafnréttis og að sjálfsákvörðunarréttur allra sé virtur, hvort sem fólk er ungt eða gamalt. Það þarf ekki að geta þessa réttar fyrir þennan aldur sérstaklega í lögum
Í einu lagaákvæðanna um þá sem orðnir eru 67 ára og eru þá aldraðir samkvæmt laganna hljóðan segir: Að fylgjast þurfi með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra. – Ætti svona lagaákvæði ekki að gilda um alla þjóðfélagsþegna, en ekki að tilgreina þá sem orðnir eru 67 ára og eldri sérstaklega.
Viljum við sérstök lög um „aldraða“ eða annan aldur ? Svari hver fyrir sig