Oft er talað um að setjast í helgan stein þegar fólk hættir þátttöku á vinnumarkaði og fer að njóta ellinnar og síðustu æviárana.
En hvenær ætti steinninn að vera klár og hver er þessi Helgi Steinn ? Hvenær er best að byrja að njóta síðustu æviáranna og hætta þátttöku á vinnumarkaði ?
Hver skyldi hafa fundið upp á því að það ætti að vera við 67 -70 ára aldurinn ? Er ekki kominn tími til að endurhugsa þá viðteknu venju að starfslok séu við ákveðinn aldur ?
Meðalaldur fólks hefur hækkað á síðustu áratugum. Ég man eftir að hafa verið í 70 ára afmælinu hjá afa mínum og fór upp frá því að hafa áhyggjur yfir því að hann færi að deyja því hann væri orðinn svo gamall. En hann átti þarna eftir 32 ár og í öll þau ár var hann virkur í samfélaginu á einn eða annan máta.
Það er ekki náttúrulögmál að fyrst eigi að mennta sig, síðan að ná sínum markmiðum á vinnumarkaði og síðan komi starfslok á fyrirfram ákveðnum aldri. Það er hægt að mennta sig á öllum aldri eins og dæmin sanna. Það er líka hægt að vinna fram yfir sjötugt og jafnvel miklu lengur ef heilsa og vilji er til staðar.
Svo loka pælingin er sú hvort þetta ætti ekki bara að vera samkomulag milli starfsmanns og vinnuveitanda hans ? Ættu starfslok ekki bara að vera val og ætti steinninn nokkuð að vera svona heilagur ?