Vestmannaeyjabær í samstarfi við Janus heilsueflingu, félag eldri borgara og HSU stendur fyrir verkefninu „Fjölþætt heilsuefling 65 + í Vestmannaeyjum – Leið að farsælum efri árum“. Markmið þessa verkefnis er að veita skipulagða heilsurækt fyrir einstaklinga 65 ára og eldri þannig að þeir geti sinnt athöfnum daglegs lífs eins lengi og kostur er, búið lengur í sjálfstæðri búsetu, komið í veg fyrir eða seinkað innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili og eigi möguleika á því að starfa lengur á vinnumarkaði.
Verkefnið er í samstarfi og að fyrirmynd dr. Janusar Guðlaugssonar, íþrótta- og heilsufræðings og lektors við Háskóla Ísland.
Aðaldriffjöðrin í þessu verkefni í Vestmannaeyjum er hún Ólöf Aðalheiður Elíasdóttir sem er Vestmannaeyingum að góðu kunn fyrir óeigingjarnt starf til íþrótta og ýmissa samfélagsmála síðustu áratugi. Óla Heiða sér um þjálfun þeirra 77 einstaklinga sem skráðir eru í verkefnið ásamt þeim Erlingi Richardssyni og Bjarnýju Þorvarðardóttur. Við tókum Ólu Heiðu tali í íþróttahúsinu einn hvassan janúarmorgun, það var þó stafalogn í þreksalnum þar sem einbeitningin skein úr hverju andliti og allir virtust setja allt sitt í að sinna æfingunum eftir bestu getu.
Ólöf Aðalheiður eða Óla Heiða eins og hún er gjarnan kölluð er 65 ára íþróttakennari, hún hefur meira og minna starfað við þjálfun og í skólakerfinu alla sína tíð. Hún hefur t.d þjálfað handbolta og fimleika til margra ára, var einn af stofnendum Íþróttafélagsins Ægis ásamt því að þjálfa. Hún vann einnig á skrifstofum á sínum yngri árum. Kenndi íþróttir til margra ára og svo var hún í almennri kennslu, í stjórnun, deildarstjóri og aðstoðarskólastjóri. Að ógleymdu því óeigingjarna starfi sem hún hefur sinnt í kringum íþróttafélögin. Svo líf Ólu Heiðu hefur snúist mikið í kringum heilsueflingu. Til viðbótar við íþróttakennaranámið fór hún í nám í Háskóla Íslands árið 2010 og bætti við sig þekkingu í lýðheilsu, heilsueflingu, næringarfræði og tómstundum aldraðra.
Starfið í kringum Fjölþætta heilsueflingu 65 +
Ég hef verið að þjálfa í heilsueflingarverkefninu frá upphafi þess eða á fjórða ár segir Óla Heiða. Var búin að fylgjast með Janusi Guðlaugssyni í svolítinn tíma og fannst þetta spennandi og hafði samband við hann. Þór Vilhjálmsson hjá félagi eldri borgara var líka búinn að vera í sambandi við hann. Vestmannaeyjabær kom svo inn í þetta og úr varð þetta verkefni hér.
Á þessum tíma höfum við bætt við nokkrum þátttakendum, nokkrir hafa ákveðið að fara sjálfir að æfa. Fólk er misvirkt en stærsti hlutinn er mjög virkur, svo eru margir á ferðalögum en þá hvetur maður fólk til að hreyfa sig. Vestmannaeyjabær hefur staðið sig vel í að borga þátttökugjaldið niður. En fyrsti hópurinn sem kemur inn í þetta lenti í covid og þá þurftum við að finna alls konar aðferðir til að hvetja fólk áfram. Við hringdum í fólk, keyptum teygjur og fórum með handa öllum, þannig að hver og einn fékk teygju til að æfa með heima og sendum myndbönd með æfingum og hvöttum fólk til að gera æfingarnar. Svo voru sendir heilsupistlar og fræðsla til fólks.
Við hvetjum fólk til að borða meira prótein og drekka meira vatn
Í þessu verkefni er alltaf einhver fræðsla,mest næringarfræði því næringin er svo rosalega mikilvæg í þessu öllu Eins og margoft hefur komið fram er eldra fólk oft að borða of lítið eða rangt. Við hvetjum fólk til að borða meira prótein og til að drekka meira vatn því eldra fólk verður oft ekki eins þyrst. Svo höfum við fengið öldrunarlækna og innkirtlasérfræðing með fyrirlestra og alls konar fræðslu. Að jafnaði eru þetta 3-4 fyrirlestrar á önn. Fyrir komandi febrúar, marz og apríl verða 3 fyrirlestrar, síðan erum við stundum að setja inn á fésbókarsíðuna okkar rafræna fyrirlestra.
Við höfum þurft að aðlagast ýmsu, við æfum þrisvar sinnum í viku með þjálfara og þá er ganga á mánudögum og svo er þreksalur á þriðjudögum og fimmtudögum. En eins og snjórinn og færðin er búin að vera að þá höfum við getað verið í salnum í íþróttahúsinu og gengið þar og fólk er ánægt með það.
Svo hef ég líka verið með jóga og stundum er verið að spyrja um Zumba og aldrei að vita nema við getum orðið við því. Annars var ég í mörg ár með kvennaleikfimi 2-3 hópa með tónlist og á pöllum, ég og Erna Jóhannesdóttir. Það er alveg fólk sem var með mér þar sem er í heilsueflingarverkefninu í dag.
Við viljum vera heilbrigð, bera okkur vel og geta klippt táneglurnar sjálf
Svo er svo stór hluti af þessu líka félagslegi þátturinn, maður er með eittthvað prógram, þú ert að fara að gera þetta á morgun og það er eitthvað framundan.
Svo eru gerðar mælingar tvisvar sinnum á ári og upp til hópa eru framfarir en kannski eftir sumarið er ekki mikil framför í vöðvastyrk. Flest allir hafa aukið við sinn vöðvastyrk, aukið úthald og við hvetjum fólk til að hreyfa sig alla daga í 30 mínútur. Fólk getur alveg farið sjálft og gengið. Það má ekki líta svo á að þetta sé eitthvað megrunarprógramm, við viljum bara vera heilbrigð segir Ólaf Heiða og að fólk beri sig vel og geti sinnt sjálfum sér s.s að klippa táneglur og svoleiðis. Það sé líka mikilvægt að viðhalda færni og styrk og liðka sig og að vera meðvitaður um hvað maður er að setja ofan í sig.
Við höfum svo gert okkur glaðan dag og farið t.d fyrir jólin á Einsa Kalda í smörrebrauð og svo á Gott í hádeginu kannski einu sinni á önn. Svo við erum að gera alls konar.
Elsti þátttakandinn er 86 ára gamall en hefur líka verið spurð hvort hún sé að taka inn unglinga
Elsti þátttakandinn í heilsueflingunni er 86 ára og svo eru nokkrir sem eru 81, 82 og 83 ára en annars eru þau á öllum aldri. Í haust tókum við inn 17 nýja og það var meira fólk frá 65 – 72 ára, manni finnst það eiginlega vera kornungt fólk. Ég var spurð að því hvort við værum að taka inn unglinga núna segir Óla Heiða og hlær við. En það er ótrúlega gaman að sjá eins og t.d mamma mín verður 82 ára á þessu ári og æfir vel og heldur sér í formi.
Það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig
Það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig, en það er nauðsynlegt að setja sér markmið segir Óla Heiða. Byrjaðu bara á 10-15 mínútum, kannski ganga bara einn hring í hverfinu. Nú erum við að setja af stað verkefni ég og fleiri sem heitir „Brúkum bekki“ sem snýst um að það séu 250 m á milli bekkja og mátulega langar gönguleiðir. Reynsla er komin á þetta í nokkrum öðrum sveitarfélögum og gerir fólki auðveldara að fara í styttri göngur og hvíla sig á milli.
En hvað gerir Óla Heiða sjálf til að halda sér í formi og virkni ?
Ég fer í Metabolic 3x í viku, geng mikið um eyjuna og fer af og til í jóga hjá Kötu Harðar eða hjá sjálfri mér, ég er líka lærður jógakennari. Ég fer líka af og til í þreksalinn til að lyfta lóðum þó að ég lyfti líka lóðum í Metabolic. Á sumrin geng ég á fjöll og hjóla mikið segir þessi fjölhæfa og kraftmikla kona að lokum.